Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Þingstubbur hefst á morgun - stór mál á stuttum tíma

Uppfærð fjármálastefna, ríkisábyrgð vegna Icelandair, framlenging hlutabótaleiðar og tekjutenging atvinnuleysisbóta eru meðal stærstu mála sem Alþingi tekur fyrir næstu daga. Þing kemur saman á ný á morgun.

Stór mál á stuttum tíma

150. löggjafarþingi var slitið 30. júní. . Þá var ákveðið að þing kæmi saman að nýju á morgun, 27. ágúst, með svokölluðum þingstubbi sem stendur yfir í um viku. Þingi verður þá slitið og hefst nýtt þing 1. október.
 
Næstu vikuna verða covid-tengd mál fyrirferðarmikil. Þingið hefst á munnlegri skýrslu forsætisráðherra um stöðuna í faraldrinum. Þá mælir fjármálaráðherra fyrir breyttri fjármálastefnu. 

„Við erum auðvitað að fara að ræða stór mál. Fjármálastefnan snýst auðvitað um þær línur sem við erum að leggja í okkar efnahagsmálum. Við erum ekki að fara að taka afstöðu til einhverra einstakra liða í fjárlagagerðinni heldur hvernig við sjáum fram úr því verkefni í raun og veru að mæta þessari djúpu niðursveiflu sem við erum stödd í,“ sagði Katrín Jakobsdóttir við fréttastofu í dag.

Á dagskrá þingstubbsins er uppfærð fjármálastefna fjármálaráðherra og frumvarp ráðherrans til fjáraukalaga um að veita Icelandair níutíu prósenta ríkisábyrgð af sextán milljarða lánalínu. 

Þá er gert ráð fyrir afgreiðslu á hlutdeildarláni félags- og barnamálaráðherra sem ætlað er að auðvelda tekjulágu fólki að kaupa fyrsta húsnæði auk frumvarps ráðherrans sem lýtur að umbótum á vinnumarkaði til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins. Þar er lagt til að hlutabótaleiðin verði framlengd um tvo mánuði tekjutengdar atvinnuleysisbætur verði framlengdar úr þremur mánuðum í sex og launagreiðslur til einstaklinga í sóttkví verði út árið 2021.

Ríkisstjórnin kom saman til fundar í ráðherrabústaðnum í morgun þar sem frumvarp félagsmálaráðherra var samþykkt. 

Gerirðu ráð fyrir átökum á þinginu varðandi þessi mál? „Ég vonast auðvitað til þess að þessi mál verði að lögum en Alþingi er náttúrulega þannig að þar er fólk með misjafnar skoðanir en ég held að það sé margt gríðarlega jákvætt í þessum breytingum og ég vonast til þess að þær verði samþykktar núna á stubbnum,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags og barnamálaráðherra.

Þetta er skammur tími, einungis um vika. Telurðu að þið náið að afgreiða öll þessi mál á þeim tíma? „Við munum auðvitað gera okkar besta til þess. Þetta er afmarkaður málafjöldi og ég held að allir séu reiðubúnir til þess að gera sitt besta bæði í stjórn og stjórnarandstöðu til að svo megi verða,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.