Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tekjutenging, hlutabætur, laun í sóttkví og nám á bótum

Mynd: RÚV / RÚV
Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að framlengja tekjutengingartímabil atvinnuleysissbóta úr þremur mánuðum í sex. Hlutabótaleiðin verður framlengd um tvo mánuði á meðan farið verður yfir stöðu atvinnumála með stéttarfélögum og atvinnurekendum.

Þá verða lög um launagreiðslur í sóttkví framlengd út árið 2021 auk þess sem lagabreytingar voru kynntar til að koma af stað átakinu „Nám er tækifæri“ þar sem þeim sem eru á atvinnuleysisbótum gefst tækifæri á að sækja nám án þess að skerða bætur. Ásmundur Einar Daðason gerir ráð fyrir að þessi mál verði lögð fyrir Alþingi á næstu dögum og vonast til að það verði afgreitt á þingstubbnum sem hefst á morgun.

„Hluti af þeim  ákvæðum sem við erum að framlengja þarna, eins og laun í sóttkví renna út um næstu mánaðamót.“ segir Ásmundur.

Hann segir að þeir sem hafa þegar notfært sér hlutabótaleiðina gefist áfram kostur á að leita í úrræðið.

„Við erum að hugsa þetta þannig að hlutabótaleiðin verði framlengd í þeirri mynd sem hún er nú og sjúm fyrir okkur að nú förum við í dýpra samtal við  bæði atvinnulífið og stéttarfélögin um hvernig við sjáum framhaldið fyrir okkur varðandi þann hóp sem þar er en það er rétt að benda á að það hefur fækkað mjög mikið þeim sem hafa verið að nota hlutabæturnar á seinustu vikum og mánuðum og það auðvitað hefur áhrif líka.“ segir Ásmundur Einar