Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Seðlabankinn heldur vöxtum óbreyttum

26.08.2020 - 09:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum óbreyttum. Meginvextir Seðlabankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða áfram 1 prósent.

Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er gert ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman um 7 prósent í ár. Þá spáir bankinn að atvinnuleysi haldi áfram að aukast og verði komið í um það bil 10 prósent í lok þessa árs.

Spá minni samdrætti fyrir allt árið en áður

Spáin fyrir seinni hluta ársins hefur versnað frá því í maí en þó eru horfur fyrir árið í heild skárri en áður. Það skýrist af því að einkaneysla var kröftugri í vor og sumar en gert hafði verið ráð fyrir. Útlit er fyrir að landsframleiðsla hafi dregist saman um tæp 11 prósent milli ára á öðrum fjórðungi ársins og einkaneysla um 10 prósent. 

Í yfirlýsingu sem peningastefnunefnd sendi frá sér í morgun er tekið fram að óvissan sé „óvenju mikil“ og að efnahagshorfur ráðist af framvindu kórónuveirufaraldursins. Seðlabankinn spáir ágætum hagvexti á næsta ári en býst ekki við að hagvöxtur nái hæðum síðasta árs þar til árið 2023. 

Atvinnuleysi jókst minna en talið var

Atvinnuleysi á öðrum ársfjórðungi jókst ekki eins mikið og Seðlabankinn óttaðist í maí. Sérstaklega er tekið fram að hlutabótaleið stjórnvalda, minnkandi atvinnuþátttaka og fjölgun hlutastarfa hafi spilað inn í. Þó er talið að atvinnuleysi verði í kringum 10 prósent í lok ársins. 

Atvinnuþátttaka mældist 78,3 prósent á öðrum ársfjórðungi og hefur ekki mælst minni frá því að vinnumarkaðskannanir Hagstofu Íslands hófust. 

Verðbólguvæntingar stöðugar

Gengi krónunnar hefur lækkað um 12 prósent frá því farsóttin fór að segja til sín hér á landi í lok febrúar og verðbólga hefur aukist lítillega. Hún mældist 2,5 prósent á öðrum ársfjórðungi en var 3 prósent í júlí. Samkvæmt spá Seðlabankans helst verðbólga í kringum 3 prósent út árið en hjaðnar á næsta ári sökum slaka í þjóðarbúinu og lítillar alþjóðlegrar verðbólgu. Lágt alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð dregur úr verðbólgu en það hefur þó tekið hraðar við sér en áður var spáð.

Verðbólguvæntingar til meðallangs og langs tíma eru hins vegar stöðugar og í yfirlýsingunni segir að „kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði bankans“ virðist  halda. Það hafi gert peningastefnunefnd kleift að sporna gegn versnandi efnahagshorfum með lágum vöxtum og öðrum aðgerðum til að styðja við innlenda eftirspurn. Áfram muni peningastefnunefnd fylgjast með sveiflum í hagkerfinu og nota þau tæki sem hún hefur til að bregðast við efnahagshorfum.