Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sara Björk mætir Wolfsburg í Meistaradeildarúrslitum

epa08627405 Paulina Dudek (R) of PSG in action against Sara Bjork Gunnarsdottir of Lyon during the UEFA Women Champions League semi final match between Paris Saint-Germain and Olympique Lyon in Bilbao, Spain, 26 August 2020.  EPA-EFE/Alvaro Barrientos / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL

Sara Björk mætir Wolfsburg í Meistaradeildarúrslitum

26.08.2020 - 20:00
Olympique Lyon vann 1-0 sigur á Paris Saint-Germain í frönskum slag í undanúrslitum Meistaradeildar kvenna í fótbolta á Spáni í kvöld. Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir lék allan leikinn með Lyon og mætir fyrrum félögum sínum í úrslitum.

Ljóst var fyrir leikinn að sigurvegarinn myndi mæta þýska liðinu Wolfsburg í úrslitum en Wolfsburg vann 1-0 sigur á Barcelona í fyrri undanúrslitaviðureigninni í gærkvöld.

Leikur kvöldsins var í járnum allt frá upphafi og markalaust var í leikhléi. Á 66. mínútu gerðist Grace Geyoro úr liði PSG brotleg við kantinn á miðjum vallarhelmingi eigin liðs. Geyoro fékk að launum sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Amel Majri tók aukaspyrnuna og þar sem hún gaf háa sendingu á fjærstöngina þar sem franska landsliðskonan Wendie Renard stökk hæst og skallaði boltann í netið.

Átta mínútum eftir mark Renard gerðist enska landsliðskonan Nikita Parris brotleg á markverði PSG og fékk að launum sitt annað gula spjald. Liðin léku því tíu gegn tíu það sem eftir lifði leiks en Lyon stóð fast á sínu og vann 1-0 sigur.

Parris mun því missa af úrslitaleiknum milli Lyon og Wolfsburg sem fer fram á sunnudagskvöld. Sara Björk mun þar mæta sínum gömlu liðsfélögum en hún skipti frá Wolfsburg til Lyon í sumar.

Lyon getur unnið sinn fimmta Evróputitil í röð en Sara Björk var í liði Wolfsburgar sem þurfti að þola tap fyrir franska liðinu í úrslitum fyrir tveimur árum síðan.

Þá má færa rök fyrir því að Sara Björk fái gullpening sama hvernig fer á morgun en hún spilaði fyrstu þrjá leiki fyrir liðið í keppninni fyrir áramót.