Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Niðurstöður seinni sýnatöku neikvæðar en ekkert mótefni

Hlíf, íbúðir aldraðra, Ísafjörður, Rúv myndir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Íbúi á Hlíf, íbúðakjarna fyrir aldraða á Ísafirði, sem greindist með kórónuveiruna eftir sýnatöku á laugardaginn, greindist ekki með veiruna í annarri sýnatöku. Niðurstöður mælinga fyrir mótefni gegn veirunni reyndust einnig neikvæðar hjá viðkomandi. Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, staðfesti þetta við fréttastofu. Hann fagnar því að ekkert smit hefur komið upp á Vestfjörðum síðan.

Karl G. Gústafsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild, segir að mælist einstaklingur með lítið magn af veirunni í fyrri sýnatöku geti komið fyrir að sýni í seinni sýnatöku mælist neikvætt. Þá sé ekki endilega óeðlilegt að mótefnamæling komi einnig út neikvæð þar sem allt að þrjár vikur geti tekið að mynda mótefni. Tíðni falskra jákvæðra niðurstaða úr kjarnsýruprófi hefur ekki verið metin beint en er talin minni en 0,04% samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands.

Ekki víðtæk hópsýking

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir að íbúinn fari aftur í sýnatöku fyrir kjarnsýrupróf á morgun sem búist er við að skýri myndina.

„Við erum að klóra okkur í kollinum yfir þessu. Eins og ég sagði í fyrradag erum við ekki komin með heillega sögu og meðan svo er þá höldum við áfram,“ segir hann.

Ekkert annað smit hefur komið upp í kringum smitið á Hlíf. „Þetta er ekki víðtæk hópsýking. Það eru jákvæðar fréttir,“ segir Gylfi. Þrjátíu sem tengdust smitinu fóru í sýnatöku á sunnudag og hundrað til viðbótar í dag sem voru í ytri hring smitsins. Niðurstaða er að vænta í fyrramálið. Gylfi segir að takmarkanir sem settar voru á Hlíf eftir að smitið kom upp verði endurskoðaðar í kjölfarið.

„Á Hlíf býr fólk í áhættuhópi og því er farið sérstaklega varlega. En allir eru meðvitaðir um það að takmarkanir á heimsóknum og það að vera innilokaður og njóta minni þjónustu hefur slæm áhrif á líkamlega og andlega heilsu,“ segir Gylfi. Félagsstarf eldri borgara var fellt niður, heimsóknir aðstandenda ekki leyfðar og dagdeild Hlífar ekki opin eftir að smitið kom upp.

Heilsugæslan á Ísafirði heldur utan um sýnatöku og smitrakningu að mestu með aðstoð smitrakningarteymis Almannavarna. Íslensk erfðagreining annast greiningu sýnanna.

Fréttin var uppfærð klukkan 17:35. Í upprunalegri útgáfu var Hlíf sagt vera dvalarheimili fyrir aldraða. Hið rétta er að Hlíf er íbúðakjarni aldraðra á Ísafirði þar sem rekin er dagdeild fyrir eldri borgara.