Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Liggur á samþykkt ríkisábyrgðar

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair
 Mynd: RÚV/Guðmundur Bergkvist
Forstjóri Icelandair segir brýnt að ríkisábyrgð á lánalínu til fyrirtækisins fái skjóta meðferð á þinginu enda stutt í hlutafjárútboð. Fjármálaráðherra vonast til að ekki komi til þess að fyrirtækið gangi á lánalínuna.

Samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra ábyrgist ríkið 15 milljarða af ríflega 16 milljarða króna lánalínu til Icelandair. Er það gert vegna þess að Icelandair er skilgreint sem kerfislega mikilvægt fyrirtæki. Ekki er ætlunin að ganga á lánalínuna heldur á hún að vera til þrautavara og styðja við fyrirhugað hlutafjárútboð.

Líta á ábyrgð sem þrautavaralán

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, mætti á fund fjárlaganefndar í Hörpu í dag og kynnti áætlanir félagsins. Hann segir brýnt að þingleg meðferð málsins gangi hratt og örugglega fyrir sig. „Það er mjög mikilvægt að fjárfestar geti gert ráð fyrir því að þessi lánalína verði til staðar þegar þeir fjárfesta í félaginu og leggi því til fjármagn. Óvissan er mjög mikil fyrir flugfélög og við erum að biðja fjárfesta um að fjárfesta í félaginu á óvissutímum þó að við teljum að framtíðin sé mjög björt hjá okkar fyrirtæki. En til þess að þetta gangi allt upp þarf þetta alllt saman að vinna saman. Lánalínan þarf að ganga í gegn og við þurfum að safna þessi fjármagni í hlutafjárútboðinu,“ segir Bogi.

Bogi segir að samkomulag sé á milli Icelandair og stjórnvalda um skilmála ríkisábyrgðarinnar. Þannig má Icelandair, ef til þess kemur, eingöngu nota lánalínuna í rekstur félagsins og ekki greiða sér út arð.

Segir ríkið ekki ætla í flugrekstur ef illa fer

Fjármálaráðherra er vongóður um að meirihluti sé fyrir ríkisábyrgðinni á þingi. Hann á ekki von á að það reyni á hana en er þó við öllu búinn. „Menn eru með rekstraráætlun sem við teljum miðað við aðstæður að sé raunsætt mat lagt á stöðuna og á grundvelli þess, ef þetta gengur eftir, þá muni ekki reyna á ríkisábyrgðina. En að sjálfsögðu er það þannig að við leggjum hér mál fyrir þingið vegna þess að það getur reynt á ábyrgðina.“

Fari allt á versta veg tekur ríkið að veði vörumerkið Icelandair, bókunarkerfið og lendingarleyfi á völdum flugvöllum. Bjarni segir það ekki ætlun ríkisins að stofna nýtt flugfélag ef svo fer. „Ég held að þetta sé frekar til vitnis um það að félagið hefur veðsett flestar eignir sínar en við metum það svo að þetta séu mjög verðmætar eignir sem að félagið gæti í raun og veru ekki haldið áfram án ef til þess kæmi.“