Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Frumvarp um sorgarorlof unnið í ráðuneyti í vetur

26.08.2020 - 08:47
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Stefnt er að því að klára að móta tillögur um sorgarorlof í vetur og leggja framvarp fram á vorþingi. Þetta kemur fram í svari frá félagsmálaráðuneytinu við fyrirspurn fréttastofu. Sorgarorlof yrði fyrir foreldra sem misst hafa börn sín.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra sagði í þinginu í júní að sorgarorlof yrði viðbót við rétt fólks en ekki afmarkað sem hluti þeirra réttinda sem það njóti nú þegar. Þá hafi einnig komið til umræðu að skoða stöðu foreldris sem missir maka sinn frá börnum þeirra.

Hann sagði að þessu máli hefði eins og fleirum verið ýtt til hliðar vegna kórónuveirufaraldursins og að hann vonaðist til að hægt yrði að skipa starfshóp sem gæti skilað af sér tillögum í vetur.

Í svarinu frá ráðuneytinu segir að við nánari skoðun hafi ekki verið talin þörf á skipan starfshóps heldur verði tillögurnar unnar af sérfræðingum ráðuneytisins. Þær verði í framhaldinu kynntar öllum helstu hagsmunaaðilum sem frumvarpsdrög.