Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill skima Íslendinga tvisvar en ferðamenn einu sinni

25.08.2020 - 12:52
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Forstjóri Airport Associates segir að stjórnvöld hafi gengið of langt í því að takmarka för ferðamanna til landsins. Hann vill að Íslendingar séu skimaðir tvisvar, eins og nú er gert, en ferðamenn aðeins við komuna til landsins.

„Ég vil meina það að við hefðum getað byrjað á því að skima alla sem koma til landsins. Sóttvarnarlæknir er búinn að segja okkur alveg frá upphafi að vandamálið sé ekki útlendingar sem eru að heimsækja landið. Vandamálið felst í því að það eru íslendingar og þeir sem eru að koma til lengri dvalar, þeir eru að smita inn í íslenskt samfélag. Við hefðum getað byrjað á að setja þá alla í sömu reglur og nú gilda, en halda lífii í ferðaþjónustunni með því að hleypa útlendingum inn í landið með því að skima.“ segir Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates.

„Flugfélögin eru núna að fljúga til landsins af því að þau eru með fullt af viðskiptavinum sem eru staddir á landinu og þurfa að komast til síns heima. Síðan gerist það að það er ekkert flugfélag sem sér sér fært að halda úti flugferðum til Íslands þegar 15 og 20 eða kannski 30 manns eru í hverri vél. Það er afleiðing þessa. Allt tal um það að það sé ekki búið að loka landinu er einfaldlega rangt. Landinu verður lokað eftir fyrsta sept.“ segir Sigþór.