
Verjendur óttast réttarmorð í áfrýjun Ratko Mladic
Stríðsglæpadómstóllinn dæmdi Mladic til ævilangrar fangelsisvistar fyrir stríðsglæpi og þjóðarmorð í Júgóslavíustríðunum á árunum 1992 til 1995. Hann var meðal annars dæmdur sekur fyrir fjöldamorð í borginni Srebrenica í Bosníu og fyrir stjórn í blóðugu umsátri um Sarajevó sem stóð í 44 mánuði.
Mladic er nú 78 ára gamall, en áfrýjun hans hefur verið frestað nokkrum sinnum frá því í mars. Bæði vegna heilsubrests Mladic, og vegna kórónuveirufaraldursins. Hann fær að taka til máls í dómsalnum á morgun, en lögmenn hans eru ósáttir við réttarhöldin. Dómarar höfnuðu því fyrir helgi að fresta réttarhöldunum frekar eftir að lögmenn kröfðust þess að Mladic fengi að gangast undir læknisskoðun.
„Þessi málsmeðferð er ólögmæt“
Mladic kvartaði undan því í morgun að geta ekki fylgt réttarhöldunum nægilega vel eftir.
„Þessi málsmeðferð er ólögmæt og gæti leitt til réttarmorðs. Ég get ekki með góðu móti tekið við ábendingum fá herra Mladic, eða verið viss um að hann geti í raun áttað sig á hvað er að gerast í réttarsalnum,“ sagði Dragan Ivetic, lögmaður Mladic.
Darko, sonur Mladic, sagði einnig að Ratko hefði ekki getað undirbúið sig sem skildi fyrir réttarhöldin. Bæði vegna heilsu sinnar og þar sem honum hafi verið meinað að hitta verjendur sína.
„Hann hefur ekki heilsu til þess að taka fullan þátt og það er hætt við að minnið hans sé orðið gloppótt,“ sagði Darko Mladic við AFP fréttastofuna.
Geta ekki mótmælt í fyrsta sinn
Hópur kvenna sem kallar sig Mæður Srebrenica, ættingjar fórnarlamba fjöldamorðanna, hafa árum saman mótmælt fyrir utan glæpadómstólinn þegar mál Mladic hefur verið til umfjöllunar. Í fyrsta sinn verða þær hins vegar ekki á staðnum til mótmæla, vegna kórónuveirufaraldursins.
„Við vonum að Mladic verði einnig dæmdur sekur fyrir fjöldamorð í fleiri bæjum, ekki aðeins fyrir það sem átti sér stað í Srebrenica,“ sagði Munira Subasic, sem er í forsvari fyrir hópinn.