Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Það má ekki beita svona brögðum í vinnudeilum“

25.08.2020 - 09:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir miðstjórn ASÍ telja að Icelandair hafi brotið lög um stéttarfélög og vinnudeilur þegar öllum flugfreyjum var sagt upp á meðan viðræður um kjarasamning stóðu yfir. Icelandair sagðist í kjölfarið myndu snúa sér til annarra viðsemjenda á íslenskum vinnumarkaði.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur samþykkt að hefja undirbúning að Félagsdómsmáli gegn Samtökum atvinnulífsins vegna framgöngu Icelandair. Samtök atvinnulífsins studdu Icelandair og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir samtökin gera það áfram. 

„Harkalega farið á svig við reglur vinnumarkaðarins“

„Þetta töldum við alltaf vera klárt brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem það má ekki beita svona brögðum í vinnudeilum. Það má ekki fara í fjöldauppsagnir eða annað slíkt til að knýja á um kjarasamninga,“ segir Drífa í samtali við fréttastofu. Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur standi skýrum stöfum að það sé óheimilt að beita uppsögn sem vopni í kjaradeilu.

„Svo er það þannig að til þess að knýja á um kjarasamninga hefur vinnandi fólk vopn sem heitir verkfall og atvinnurekendur vopn sem heitir verkbann. Þetta er það sem hver aðili um sig getur notað. Þegar uppsögn er beitt lítum við svo á að það sé um ólögmætt verkbann að ræða. Af því að verkbann þarf að boða með ákveðnum fyrirvara alveg eins og verkföll. Þannig þarna var mjög harkalega farið á svig við reglur vinnumarkaðarins,“ segir hún. 

Drífa segir það skýra afstöðu allrar miðstjórnar ASÍ að láta reyna á málsókn fyrir Félagsdómi. „Ekki bara þessarar deilu vegna heldur að fá úr því skorið hvort þetta sé lögmætt og ef þetta er lögmætt þarf augljóslega að fara að breyta reglum á vinnumarkaði,“ segir hún. 

SA stendur með Icelandair

Halldór Benjamín segir málsókn ASÍ ekki koma á óvart. „Hins vegar munum við að sjálfsögðu taka til fullra varna fyrir hönd Icelandair. Og við vitum að aðrir lögmenn, svo sem Lára V. Júlíusdóttir, hafa tjáð sig um þetta og talið að aðgerðir Icelandair séu löglegar með öllu,“ segir hann.

Aðspurður hvort hann telji að félagið hafi ekki brotið lög með uppsögnum segir Halldór málið snúast um túlkun á löggjöf um stéttarfélög og vinnudeilur. „Og um það verður tekist fyrir Félagsdómi“. Þá segist hann telja að löggjöfin sé löngu úrelt og  tími sé kominn til að endurskoða hana frá grunni. „Og hver veit nema þetta verði upphafið að því,“ segir Halldór Benjamín að lokum.