Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft gríðarleg áhrif á heimsbyggðina alla og NBA-körfuboltadeildin í Bandaríkjunum er þar engin undantekning. Það virtist ómögulegt með öllu að tryggja fjarlægðarmörk í körfubolta, innanhúsíþrótt þar sem leikmenn eru viðþolslaust í líkamlegri snertingu hver við annan í meira en tvær klukkustundir í senn. Ef tímabilið hefði verið blásið af, hefði deildin orðið af einum milljarði bandaríkjadala í sjónvarpstekjum, sem skiptast til helminga á milli deildarinnar og leikmanna. Miklir hagsmunir voru í húfi.