Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sápukúla í Disney World

Mynd: EPA-EFE / EPA

Sápukúla í Disney World

25.08.2020 - 15:49
Disney World í Flórída er nú COVID-19-held sápukúla utan um einna launahæstu íþróttamenn heims í NBA körfuboltadeildinni bandarísku. Vegna kórónuveirufaraldursins leit út fyrir að NBA-deildin tapaði einum milljarði bandaríkjadala í sjónvarpstekjum. Til að koma í veg fyrir það var sköpuð risastór sápukúla utan um NBA í ævintýraveröldinni í Disney Word.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft gríðarleg áhrif á heimsbyggðina alla og NBA-körfuboltadeildin í Bandaríkjunum er þar engin undantekning. Það virtist ómögulegt með öllu að tryggja fjarlægðarmörk í körfubolta, innanhúsíþrótt þar sem leikmenn eru viðþolslaust í líkamlegri snertingu hver við annan í meira en tvær klukkustundir í senn. Ef tímabilið hefði verið blásið af, hefði deildin orðið af einum milljarði bandaríkjadala í sjónvarpstekjum, sem skiptast til helminga á milli deildarinnar og leikmanna. Miklir hagsmunir voru í húfi.

epa08621307 Dallas Mavericks guard Tim Hardaway Jr. reacts after scoring against the LA Clippers during the second half of the NBA basketball first-round playoff game four at the ESPN Wide World of Sports Complex in Kissimmee, Florida, USA, 23 August 2020.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tim Hardaway

Forráðamenn deildarinnar og leikmennirnir þurftu að hugsa út fyrir boxið og hugsa í lausnum. Niðurstaðan varð sú að búa til risavaxna sápukúlu í Disney World í Flórída. Algjörlega lokað svæði fyrir leikmenn, starfsfólk og blaðamenn í ævintýraveröldinni í Disney.

COVID-einangrað umhverfi

Ofurstjarnan LeBron James segir þetta helst líkjast körfuboltamóti barna með fullorðnum leikmönnum sem í ofanálag eru meðal launahæstu íþróttamanna heims. Það eru engir áhorfendur og allir leikmenn þurfa að fara eftir gríðarlega ströngum sóttvarnareglum sem samviskusamlega eru skráðar í þykka reglugerðabók. Allir hafa sín föstu sæti og enginn fer í sturtu fyrr en viðkomandi er kominn á eigið hótelherbergi. Þrjú hundruð og fimmtíu leikmönnum tuttugu og tveggja liða, ásamt starfsmönnum og fjölmiðlafólki var komið fyrir í COVID-einangruðu umhverfi, þar sem ekkert er til sparað í að koma í veg fyrir kórónuveirusmit.

epa08623684 Portland Trail Blazers forward Carmelo Anthony (C) shoots over Los Angeles Lakers center JaVale McGee (R) during the second half of the NBA basketball first-round playoff game four at the ESPN Wide World of Sports Complex in Kissimmee, Florida, USA, 24 August 2020.  EPA-EFE/JGM SH  SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Marc Stein hefur verið í sápukúlunni í Disney í 45 daga til að færa heimsbyggðinni fréttir fyrir New York Times. Hann fer daglega í skimun fyrir kórónuveirunni og þurfti að byrja í sjö daga í sóttkví á hótelherberginu. Hann má ekki yfirgefa herbergið án leyfis og engin viðtöl eru leyfð nema innan þeirra marka sem honum eru sett.

NBA-deildin blásin af fyrst deilda 

Ellefta mars reyndist leikmaðurinn Rudy Gobert hjá Utah Jazz smitaður af kórónuveirunni, rétt fyrir leik liðsins gegn Oklahoma City Thunder. Forráðamenn deildarinnar brugðust fljótt við og NBA-deildin varð fyrst af stóru deildunum í Norður-Ameríku til að hætta keppni. Ekkert var leikið í fjóra mánuði, fyrr en efstu lið deildarinnar komu saman í sápukúlunni svokölluðu í Disney World til að klára leiktíðina. Gert er ráð fyrir að úrslitaleikurinn fari fram fyrir miðjan október.

epa08623563 The Portland Trail Blazers and the Los Angeles Lakers warm up before their NBA basketball first-round playoff game four at the ESPN Wide World of Sports Complex in Kissimmee, Florida, USA, 24 August 2020.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO  SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Leikmenn búa saman í einangrun á þremur hótelum í Disney World og eru allir skimaðir fyrir veirunni á hverjum einasta degi. Þeir þurfa að bera andlitsgrímu og þess er stranglega gætt með nýjustu tækni að þeir virði fjarlægðarreglur. Risastór rannsóknarstofa fylgist með heilsufari leikmanna, tekur sýni og greinir þau. Starfsmenn rannsóknarstofunnar eru eitt þúsund og fimm hundruð talsins. Kostnaður við rannsóknarstofuna er hundrað og áttatíu milljónir bandaríkjadala.

Fáklæddar stúlkur og kjúklingavængir

Strangar reglur gilda í þessum litla körfuboltaheimi og hörðustu viðurlögin eru við því að fara út af sóttvarnasvæðinu. Richaun Holmes frá Sacramento Kings varð það á að fara út fyrir sóttvarnasvæðið til að taka við sendingu af matreiddum kjúklingavængjum. Hann var umsvifalaust sendur í tíu daga stranga sóttkví og umfangsmiklar skimanir og rannsóknir. Lou Williams frá Los Angeles Clippers var um helgina sendur í tíu daga einangrun. Hann fékk leyfi til að fara í jarðarför en keypti sér mat á leiðinni á vafasömum stað þar sem fáklæddar stúlkur þjónuðu. Það er engan veginn í samræmi við strangar reglur NBA.