Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Rimlahlið á mörkum varnarlína verða ekki fjarlægð

Mynd með færslu
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir. Mynd:
Yfirdýralæknir segir að ekki standi til að fjarlægja rimlahlið á hringveginum í Húnavatnssýslum og Skagafirði á mörkum varnarlína búfjársjúkdóma. Gerð hafi verið mistök þegar tilkynnt var að hliðin yrðu fjarlægð.

Eins og við greindum frá í gær fengu Sveitarfélagið Skagafjörður og Húnaþing vestra bréf frá Vegagerðinni um að fjarlægja ætti þrjú rimlahlið á þjóðvegi eitt í sveitarfélögunum. Þessu var mótmælt þar sem hliðin eru öll á mörkum varnarlína búfjársjúkdóma og sögð gegna mikilvægu hlutverki í að verjast riðuveiki.

Yfirdýralæknir segir að hliðin verði ekki fjarlægð

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir að rimlahliðin verði ekki fjarlægð. „Nei, það stendur ekki til að fjarlægja þetta. Við viljum alls ekki að það verði fjarlægt og vilum endilega halda þessum varnarlínum fjáheldum eins og mögulegt er. Ég er búin að tala við Vegagerðina og fullvissa mig um að það er ekki verið að fara að fjarlægja þessi ristarhlið og opna þannig á varnarlínuna.“

Mistök urðu til þess að bréfið var sent

Og hún segir að fyrir mistök hjá starfsmanni Matvælastofnunar, sem sér um fjármál við viðhald varnarlína, hafi umrætt bréf verið sent. „Mér var ekki kunnungt um þennan póst á þeim tíma og fékk að vita þetta bara núna nýlega, að þessi póstur hefði farið á milli þeirra.“

Ágreiningur um hver eigi að kosta viðhald rimlahliða

Sigurborg segir að það sé ágreiningur milli Matvælastofnunar og Vegagerðarinnar um hvor stofnunin eigi að kosta viðhald á rimlahliðum á þjóðvegum sem skera varnarlínur. Það verði fundur um þetta í vikunni enda sé mikilvægt að leysa málið. „Vegagerðin sér um viðhald á vegum og ristahliðum sem eru á vegunum. Það er aldrei neinn ágreiningur um það. Það er bara spurningin hver borgar það.“