Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ótryggð ökutæki valda tugmilljóna tjóni árlega

25.08.2020 - 04:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Milljónatjón hlýst ár hvert af ótryggðum ökutækjum í umferð. Þau eru nú um 2600 á Íslandi. Herða þarf eftirlit til að fækka þeim og taka upp sektakerfi líkt og gerist erlendis.

Þetta hefur Morgunblaðið í dag eftir Mörtu Jónsdóttur framkvæmdastjóra Alþjóðlegra trygginga á Íslandi.

Hún segir kostnað við tjón af völdum óvátryggðra ökutækja nema tugum milljóna ár hvert. Tryggingafélögum er skylt að ábyrgjast tjón sem ökumenn eða eigendur ótryggðra farartækja valda.

Reynt er að ná kostnaðinum til baka en takist það ekki greiða tryggingafélögin hann gegnum Alþjóðlegar tryggingar. Að sögn Mörtu leiðir það á endanum til hækkunar iðgjalda þeirra skilvísu.

Mat hennar er að fjöldi ótryggðra ökutækja haldist í hendur við efnahagsástandið á hverjum tíma og því geti þeim fjölgað á næstunni. Marta bendir á að lögreglan ein megi klippa skráningarnúmer af ótryggðum farartækjum.

Hún segist gera sér grein fyrir að tími lögreglu sé dýrmætur og því mætti koma því verkefni til einkaaðila. Til þess þyrfti lagabreytingu.

Í frétt Morgunblaðsins er haft eftir Ásgeiri Þór Ásgeirssyni yfirlögregluþjóni að uppi séu hugmyndir um aukið eftirlit með ótryggðum ökutækjum með myndavélatækni. Það sé þó enn á hönnunarstigi.

Víða erlendis segir Marta að eigendur ótryggðra tækja séu sektaðir og að það hafi orðið til að þeim hafi fækkað talsvert.