Ökuapp VÍS: Segir þurfa að fara vel yfir heimildir

25.08.2020 - 20:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Tryggingafélagið VÍS auglýsir þessa dagana eftir fólki til að prófa nýtt app sem fylgist með aksturslagi fólks. Einkunn fyrir akstur getur haft áhrif á verð bílatrygginga þeirra sem fá sér appið. Forstjóri Persónuverndar, Helga Þórisdóttir, segir að viðskiptavinir þurfi almennt að velta því fyrir sér hvort þeir vilji gefa eftir hluta af friðhelgi einkalífsins fyrir lægri reikning.

Fulltrúar VÍS hafa átt óformlegt spjall við fulltrúa Persónuverndar um þessar fyrirætlanir. „Til þess að fara af stað með svona vöru eins og fyrirtækið er að bjóða upp á þá þarf að passa það að það sé búið að undirbúa málsmeðferðina og það sé búið að fara yfir það hvort það séu nægilegar heimildir til staðar og við ákveðnar aðstæður getur þurft að fara í formlegt samráð við Persónuvernd, til dæmis ef að ábyrgðaraðili, sem þá væri fyrirtækið, telur sig ekki geta takmarkað eða lágmarkað áhættu af vinnslu persónuupplýsinga,“ segir Helga.

Ef verið er að safna umfangsmiklum upplýsingum, svo sem um staðsetningu, þurfi að fara vel yfir persónuverndarlög áður. Sé það ekki gert getur það haft afleiðingar fyrir fyrirtæki, almennt séð. „Þá bendi ég til dæmis á sektarheimildir Persónuverndar,“ segir Helga. 

Segjast ætla að gera umferðina öruggari

Með appinu á að gera umferðina öruggari, að því er segir á vef VÍS. Þar segir að það hjálpi fólki að fylgjast með akstri sínum og hvetji það til að keyra vel. Upplýsingum um staðsetningu verði ekki safnað og upplýsingar ekki afhendar eða seldar öðrum. Í appinu geti tryggingafélagið fylgst með aksturseinkunn og vegalengd og verð á tryggingum ákvarðað út frá því. Umbunað sé fyrir það sem álitið er öruggur akstur en verð geti verið hækkað ef ekki er ekið á öruggan hátt. 

Helga segir að nú séu áhugaverðir tímar, vegna tilkomu tækninnar, og því skipti miklu máli almennt að fyrirtæki fari eftir persónuverndarlögum. „En hitt er eitthvað sem við sem einstaklingar þurfum kannski að staldra við og það eru siðferðislegu sjónarmiðin sem hér eru undir; er rétt hjá fyrirtækjum að fara í meiri og meiri rýni á ykkur? Er rétt að óska eftir því að við gefum hluta af friðhelgi einkalífs okkar í staðinn fyrir mögulega aðeins lægri gjöld í hverjum mánuði?“ spyr forstjóri Persónuverndar. 

Segir persónuverndarlög mikið haldreipi

Helga bendir á að nú til dags séu það oft fyrirtæki sem vilji fylgjast með ferðum fólks. „Þá felur það oft í sér mikið inngrip í líf fólks og þá eru nýtilkomin persónuverndarlög, sem eru með sterkari heimildir fyrir réttindi einstaklinga heldur en áður, mikið haldreipi.“

Það getur gerst, að sögn Helgu, þegar eftirlit fyrirtækja með lífi fólks verður meira, að á endanum verði það þannig að talið verði að þeir sem vilji ekki vera með hafi eitthvað að fela. „Þannig, til dæmis, er staðan nú þegar orðin í Kína. Þar sem þeir eru litnir hornauga sem að vilja ekki deila öllu sínu lífi með stjórnvöldum.“ Víðast annars staðar í heiminum séu það frekar fyrirtæki sem vilji að fólk deili upplýsingum um líf sitt. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi