Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Liechtenstein vill tífalda stærð sína og leitar til MDE

Mynd með færslu
 Mynd: Liechtenstein
Stjórnvöld í Liechtenstein hafa leitað til Mannréttindadómstóls Evrópu með það fyrir augum að endurheimta landsvæði sem nú telst til Tékklands. Deilurnar hafa staðið yfir í áratugi.

Landsvæðið sem deilt er um er um tvö þúsund ferkílómetrar, sem er meira en tíu sinnum stærra en Liechtenstein er nú - aðeins um 160 ferkílómetrar. Furstadæmið telur að þegar landamæri voru dregin eftir síðari heimsstyrjöld hafi svæðið sem um ræðir ranglega verið haft innan Tékkóslóvakíu. Liechtenstein hafi verið sett undir sama hatt og Þjóðverjar og því talið eðlilegt að taka svæðið eignarnámi í refsingarskyni eftir stríð.

Svæðið tilheyrir nú Morava-héraði í Tékklandi, en þar eru meðal merkustu kastala Evrópu. Tveir þeirra eru á heimsminjaskrá UNESCO og annar þeirra var í eigu Liechtenstein-furstafjölskyldunnar. 

Deilurnar hafa staðið yfir í áratugi en Katrin Eggenberger, utanríkisráðherra Liechtenstein, segir við Financial Times að nú se mál að linni. Það sé mikilvægt að smáríki reyni að standa uppi í hárinu á stærri ríkjum. Þess vegna hafi verið leitað til Mannréttindadómstólsins. Tékkar segja hins vegar að málið hafi ekkert þangað að gera, því deilurnar nái lengra aftur en tilurð dómstólsins sjálfs. Þess má geta að ríkin tvö deila ekki landamærum.

Eggenberger segist vongóð um að dómstóllinn úrskurði furstadæminu í hag, þrátt fyrir að það hafi í gegnum tíðina ekki riðið feitum hesti frá öðrum kröfum sem byggja á sögulegum rökum.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV