Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Leit heldur áfram í húsarústum á Indlandi

25.08.2020 - 06:14
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Leit heldur áfram að fólki sem gæti legið undir rústum fimm hæða íbúðablokkar sem hrundi í borginni Mahad suður af Mumbai á Indlandi síðdegis í gær.

Að sögn talsmanns björgunarsveita hefur einn fundist látinn í rústunum. Margir íbúa hússins höfðu þegar yfirgefið borgina vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Enn er óvíst hve mörg eru föst undir brakinu, mörgum tókst að flýja þegar húsið tók að gefa sig, en fjöldinn getur verið á bilinu tuttugu til sjötíu.

Íbúi í húsinu kvaðst í fyrstu hafa talið jarðskjálfta hafa riðið yfir í samtali við dagblaðið The Mumbai Mirror. Honum tókst að flýja ásamt fjölskyldu sinni en segir að byggingin hafi hrunið allt í kringum þau á leiðinni út.

Stjórnmálamaðurinn Manik Motiram Jagtap sagði í sjónvarpsviðtali að húsið væri aðeins tíu ára gamalt en byggt á veikum grunni. Það hafi í raun hrunið eins og spilaborg.

Hrun hússins bætir gráu ofan á svart í Maharashtra ríki á Indlandi þar sem Covid-19 hefur geisað af miklum móð. Um fimmtungur þeirra þriggja milljóna sem greinst hafa með kórónuveiruna á Indlandi eru búsett þar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV