Harma ástandið sem ólyktin veldur

Mynd með færslu
Staðsetning Íslenska gámafélagsins í Gufunesi hefur lengi verið umdeild og íbúar orðnir þreyttir á lykt sem þaðan berst. Mynd: Menningin - RÚV
Íslenska gámafélagið harmar það ástand sem hefur skapast vegna ólyktar sem hefur borist frá jarðgerð fyrirtækisins í Gufunesi.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Jóni Þóri Frantzsyni, forstjóra Íslenska gámafélagsins. Segir hann fyrirtækið leita nú allra leiða til að koma í veg fyrir að lyktin berist í nærliggjandi byggð.

„Við teljum að við höfum náð tökum á ástandinu m.a. með því að setja þykkt lag af timburkurli yfir hauga og auka magn lyktareyðandi ensíma sem við dreifum yfir múga,“ segir í yfirlýsingunni.

Segir Jón Þórir múgana aukinheldur verða setta undir plast að miklum hluta og að þannig ætti að verða hægt að eyða lykt, áður en hún berst út í andrúmsloftið. „Þá mun ýtrustu varúðar verða gætt varðandi vindátt næst þegar snúa þarf múgum og tilkynning gefin þess efnis áður en sú framkvæmd fer fram,“ segir í yfirlýsingunni en íbúar eru aukinheldur beðnir um að láta fyrirtækið vita ef þeir verða varir við að lyktin berist til þeirra.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi