Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Finnair segir upp þúsund manns

25.08.2020 - 13:32
Mynd með færslu
 Mynd: Finnair
Finnska ríkisflugfélagið Finnair ætlar að segja upp þúsund starfsmönnum vegna kórónuveirufaraldursins og horfna í efnahagsmálum. Uppsagnirnar ná til 15 prósenta starfsfólks flugfélagsins en þó ekki til flugfreyja og flugmanna.

Topi Manner, forstjóri Finnair, sagði að uppsagnirnar væru nauðsynlegar þar sem ekkert benti til þess að betri tíð væri í nánd. Tekjufall félagsins væri mikið og það þyrfti að laga sig að nýjum markaðsaðstæðum. Meirihluti starfsfólks er í skertu starfshlutfalli.

Finnair aflýsti 90 prósentum flugferða sinna i apríl og gaf út afkomuviðvörun vegna faraldursins. Félagið leggur mikið upp úr flugi milli höfuðborgarinnar Helsinki og Asíu, sem tengingu til Evrópu, og slík flug hafa verið í algjöru lágmarki síðustu mánuði.

Finnair er ekki eina norræna flugfélagið sem á í vanda, SAS hefur einnig barist í bökkum að undanförnu. SAS tilkynnti í dag tap upp á 2,37 milljarða sænskra króna frá maí og út júlí eða sem nemur um 37 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma í fyrra var hagnaður félagsins jafnvirði 19 milljarða íslenskra króna.