Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Drífa: Þetta er aðför að grunngildum

Mynd: RÚV / RÚV
Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands segir að aðför hafi verið gerð að grunngildum á íslenskum vinnumarkaði í kjaradeilu Icelandair við Flugfreyjufélag Íslands. ASÍ undirbýr nú mál fyrir Félagsdómi gegn Samtökum atvinnulífsins. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir málsóknina ekki koma á óvart og segir lög um vinnudeilur úrelt. 

Icelandair sagði um 95% flugfreyja sinna upp meðan á kjaraviðræðum stóð. Þegar þær kolfelldu kjarasamning sagðist Icelandair ætla að ráða fólk úr öðru stéttarfélagi. Eftir að samningar náðust var um fimmtungur ráðinn aftur.

Drífa segir uppsagnirnar jafngilda ólöglegu verkbanni og aðgerðum Icelandair hafi verið ætlað að hafa áhrif á afstöðu flugfreyja. „Eftir að samningar voru felldir þá voru viðbrögð Icelandair með stuðningi SA það að segja upp öllu starfsfólki. Það má ekki nota fjöldauppsagnir þegar kjaradeila er í gangi,“ segir Drífa.

Var eitthvað annað að gera í stöðunni fyrir Icelandair en að segja upp fólki miðað við stöðu fyrirtækisins og  fækkun ferðamanna? „Já, að semja aftur. Eins og var gert.  Alvarleiki málsins felst líka í því að þarna var ákveðið fyrirtæki að lýsa yfir að það ætlaði sjálft að velja og hafna viðsemjendum. Og það er bara aðför að grunnprinsippum á íslenskum vinnumarkaði.“

Halldór Benjamín  segir fyrirhugaða málshöfðun ASÍ ekki koma á óvart. Hann hefur viðrað þau sjónarmið að vinnulöggjöfin sé úrelt.  „Það eru rétt um tvö ár síðan samningaviðræður sem leiddu til gerðar lífskjarasamningsins hófust og enn höfum við ekki lokið kjarasamningsgerð á almennum vinnumarkaði.“

Eruð þið ekki bara að segja þetta vegna þess að þið standið frammi fyrir stefnu fyrir Félagsdómi? „Síður en svo.“

>>