Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

American Airlines fækkar störfum um þriðjung

25.08.2020 - 22:15
Airbus A320 flugvél American Airlines
 Mynd: Airbus
Bandaríska flugfélagið American Airlines gerir ráð fyrir að fækka um þriðjung í starfsliði sínu í haust.

Flugfélagið tilkynnti í dag að það ætli að fækka stöðugildum um 40.000 og þá verði 19.000 manns sagt upp störfum í október. Kórónuveirufaraldurinn hefur áhrif á flugfélög víða um heim og hafa bandarísk flugfélög notið ríkisstuðnings undanfarna mánuði, sem gildir út september. Kórónuveirufaraldurinn virðist þó ekki í rénun og ekki útlit fyrir að ferðamannaiðnaðurinn taki við sér í bráð.

Bandarísk flugfélög hafa fengið 25 milljarða dollara í ríkisstuðning til þessa og hafa flugfélögin róið að því öllum árum að fá þingið til að samþykkja sambærilega fjárhæð til viðbótar.

Illa hefur hins vegar gengið að fá samþykkti þingsins fyrir slíkri fjárveitingu.

Reuters fréttaveitan segir hlutabréf í American Airlines, sem var með um 140.000 manns í vinnu fyrir kórónuveirufaraldurinn, hafa fallið um 2,7% við fréttirnar.

Í pósti sem framkvæmdastjórinn Doug Parker og forstjórinn Robert Isom, sendu starfsmönnum segja þeir stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafa gert ráð fyrir að það tekist hefði að ná stjórn á veirunni fyrir lok september. Það hafi hins vegar ekki gerst.

Reuters segir athygli vekja að tilkynning flugfélagsins berist á sama tíma og landsþing repúblikana fer fram, en þar reynir Donald Trump Bandaríkjaforseti nú að ná vopnum sínum í miðjum faraldri sem valdið hefur dauða 175.000 Bandaríkjamanna og kostað milljónir vinnuna.