Alvarleg líkamsárás í Eyjum - árásarmaðurinn ófundinn

25.08.2020 - 16:15
Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - RÚV
Framin var alvarleg líkamsárás í Vestmannaeyjum í nótt. Ráðist var á mann á fertugsaldri og hlaut hann alvarlega áverka. Í tilkynningu Lögreglunnar í Vestmannaeyjum í Facebook segir að árásarmaðurinn hafi beitt einhvers konar áhaldi við verknaðinn. Árásarmaðurinn hafði hulið andlit sitt og óskar lögregla eftir upplýsingum frá vitnum.

Árásarmaðurinn er um 190 sentimetrar að hæð, grannvaxinn og líklega dökkklæddur, að því er segir í tilkynningu lögreglu.

Árásin var framin í götunni Áshamri, sunnan við vestustu raðhúsalengjuna í götunni. Ráðist var á manninn á milli klukkan 2:00 og 2:15. Lögregla biður þá sem urðu varir við árásina eða grunsamlegar mannaferðir að hafa samband við lögregluna í Vestmannaeyjum í síma 444-2091, með tölvupósti á netfangið [email protected] eða  í gegnum Facebook-síðu lögreglu.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi