Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ætla að láta Félagsdóm skera úr um aðgerðir Icelandair

25.08.2020 - 06:43
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) ætlar að láta reyna á lögmæti aðgerða Icelandair gegn Flugfreyjufélagi Íslands (FFÍ) fyrir Félagsdómi. Bókun um þessi áform var samþykkt á fundi miðstjórnar ASÍ í síðustu viku.

Í bókuninni lýsir ASÍ stuðningi við Flugfreyjufélag Íslands. Þar segir að undirbúningur málsins muni hefjast þegar í stað og að þar verði látið reyna á lögmæti framgöngu Icelandair með stuðningi Samtaka atvinnulífsins í deilunni við FFÍ um grundvallarreglur varðandi samskipti á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í Fréttamolum ASÍ, sem er innanhúsfréttabréf sambandsins.

Á miðstjórnarfundinum reifuðu Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, starfandi formaður FFÍ, og Berglind Kristófersdóttir, stjórnarformaður FFÍ, kjaraviðræður milli FFÍ og Icelandair í vor og sumar. Samningar náðust 25. júní en flugfreyjur kolfelldu samninginn í atkvæðagreiðslu. Þann 18. júlí hættu stjórnendur Icelandair viðræðum við FFÍ og sögðu öllum flugfreyjum upp. Rúmum sólarhring síðar náðust samningar milli aðilanna

ASÍ telur framferði Icelandair hafa farið í bága við ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Að mati Magnúsar M. Norðdahl, lögfræðings ASÍ, þjónuðu aðgerðir Icelandair þeim tilgangi „að hafa áhrif á afstöðu og þátttöku félagsmanna FFÍ í vinnudeilu félagsins við Icelandair með því bæði að hóta og hrinda í framkvæmd uppsögnum.“ Að sama skapi hafi fjöldauppsögnin falið í sér ólögmætt verkbann.