Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aðgerðir snúast um miklu meira en bara ferðaþjónustuna

25.08.2020 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ferðamálaráðherra segir að það hafi verið fyrirséð að hertar aðgerðir gagnvart komu ferðamanna til landsins hefðu afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna. Markaðssetningu landsins þurfi að laga að breyttum veruleika.

„Við vissum auðvitað að afleiðingarnar af þeim ákvörðunum yrðu mjög miklar, sérstaklega fyrir ferðaþjónustuna. Það lá fyrir. Þessi ákvörðun var tekin og það skiptir máli að vinna mjög ígrundað mat á því við hvaða aðstæður hægt er að létta á takmörkunum og hvernig þetta samspil er. Auðvitað er ferðavilji fólks í öðrum löndum minni þegar veiran er í vexti annarsstaðar. Og það hefur áhrif á okkur líka. Verkefnið framundan er bara að finna út úr þessu samspili og forgangsröðun íslenskra stjórnvalda hefur alltaf verið skýr.“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra.

Hún segir ekki útséð hversu lengi núverandi fyrirkomulag verður gagnvart komu fólks til landsins. Enn eigi eftir að ræða hvort ráðist verður í mótvægisaðgerðir gagnvart ferðaþjónustunni sérstaklega. 

„Það að þessar takmarkanir séu í gildi snýst um miklu meira en ferðaþjónustuna. Þetta snýst um að við erum eyríki og við eigum allt undir að vera opið land. Við eigum allt undir sterkum og öflugum tengingum við Ísland. Afleiðingarnar af því þegar engir ferðamenn komu eða mjög fáir er auðvitað flugumferð minnkar mjög verulega og það er það sem við sjáum og það er það sem maður hefur áhyggjur af. Það er einhver staða sem við verðum að brjótast út úr. En óvissan er einfaldlega þannig að það er ekki hægt að taka ákvarðanir til lengri tíma, því miður.“ segir Þórdís.

Hún telur að þeim eina og hálfa milljarði sem varið var í markaðsátakið „Ísland saman í sókn“ í vor sé vel varið.

„Þetta er vinna til langs tíma, og þeim fjármunum er ekki sóað, og við tryggðum það að vera með mikið svigrúm í samningnum og í þessu verkefni til að geta breytt um taktík og tekist á við þennan ófyrirsjáanleika og Íslandsstofa heldur mjög vel utan um það verkefni“ segir Þórdís.