Tveir smitaðir um borð í Norrænu

24.08.2020 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Rúnar Snær Reynisson - Tollvörður á Seyðisfirði
Tveir farþega Norrænu eru smitaðir af COVID-19 kórónuveirunni, en skipið kemur á morgun í sína fyrstu ferð til Seyðisfjarðar eftir að vetraráætlunin tók gildi.

Lögreglan á Austurlandi greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og segir þar að farþegarnir tveir hafi greinst jákvæðir af kórónuveirunni við skimun í Danmörku og hafi því dvalið í einangrun um borð.

162 farþegar sigla nú með Norrænu til Íslands og liggur ekki grunur á að þeir hafi smitast. Líkt og aðrir þeir sem koma til landsins þessa dagana verða þeir skimaðir við komuna til Seyðisfjarðar á morgun.

Farþegarnir tveir sem greindust jákvæðir fara í sýnatöku til mótefnamælingar og verða áfram í einangrun, að minnsta kosti þar til niðurstaða mótefnamælingar liggur fyrir.

Allir aðrir farþegar með Norrænu eiga að sæta sóttkví í 4-6 daga að lokinni sýnatöku á Seyðisfirði auk þess að fara í seinni sýnatöku eins og reglur gera ráð fyrir.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi