Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Tímasetning Conway óheppileg fyrir Trump

epa08621461 (FILE) - Kellyanne Conway, Counselor to the US President, speaks to media inside the James S. Brady Press Briefing Room at the White House in Washington, DC, USA, 05 February 2020 (reissued 24 August 2020). Kellyanne Conway has announced that she will leave the White House at the end of August 2020.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
Kellyanne Conway hefur verið náin ráðgjafi Trumps frá upphafi kjörtímabils hans. Mynd: EPA-EFE - EPA
„Minna drama og meiri mamma,“ er ástæðan sem Kellyanne Conway, einn helsti ráðgjafi Donald Trumps Bandaríkjaforseta hefur sagt liggja að baki þeirri ákvörðun sinni að yfirgefa Hvíta húsið. Conway, sem stjórnaði kosningabaráttu Trumps 2016, tilkynnti óvænt í gær að hún hygðist láta af störfum.

Allt frá því Trump tók við forsetaembættinu hefur starfsmannaveltan í Hvíta húsinu verið ör. Conway hefur hins vegar staðið fast við hlið hans alla tíð og veitt honum mikilvæga ráðgjöf. En hver er þessi kona, sem hefur tilheyrt afar fámennum hópi sem starfað hefur við hlið Trumps frá því hann tók við embætti?

Conway, sem er 53 ára, hefur um árabil verið ráðsnillingur hjá Repúblikanaflokknum og starfaði sem slíkur löngu áður er Trump gaf fyrst kost á sér til forseta.

Hún var þriðji kosningastjórinn sem starfaði fyrir Trump og fyrsta konan í sögu Bandaríkjanna til að vera kosningastjóri í forsetakosningum. Hún leiddi lokasprett baráttunnar þar sem Trump fór með sigur af hólmi gegn Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins.

Conway hefur tekist hressilega á við fréttamenn í tíð sinni í Hvíta húsinu og hefur meðal annars varið það sem hún kallar „sannlíki“ (e. alternative truth) í máli forsetans. Orðið fel­ur í sér þá hug­mynd að allt sé af­stætt og nýtti Conway m.a. þessa lýsingu eftir innsetningarathöfn Trumps. En þáverandi fjölmiðlafulltrúi Trumps, Sean Spicer, fullyrti að innsetningarathöfnin hafi hefði verið sú fjölmennasta frá upphafi. Samanburður á myndum frá viðburðinum og fyrri innsetningaathöfunum benti hins vegar til að svo væri ekki.

Conway hefur enn fremur ítrekað sakað fjölmiðla um að dreifa falsfréttum um forsetann, sem hún hefur varið af fullum krafti í gegnum kjörtímabilið.

Sparar ekki stóru orðin

Fréttaritari danska ríkisútvarpsins DR í Washington , segir brotthvarf Conway nú, tveimur og hálfum mánuði fyrir kosningar, komi sér illa fyrir Trump sem með því missi einn sinn traustasta starfsmann.

„Tímasetningin er óheppileg fyrir Trump,“ segir fréttaritarinn Steffen Gramp. „Kellyanne Conway hefur verið með Trump frá því áður en hann var kjörinn. Trump er nú í þeirri stöðu að einn hans nánustu ráðgjafa stígur til hliðar á þeim tíma sem kosningabarátta hans virðist vera í vanda.“

Conway er þekkt fyrir að spara ekki stóru orðin og það á jafnt við um kórónuveirufaraldurinn og annað. Hefur hún til að mynda gagnrýnt harðlega þá skömm sem fylgi veirunni.

„Maður á ekki að vera svo hræddur við kórónu að maður þori ekki að yfirgefa heimili sitt, eða vilji ekki opna litla fyrirtækið sitt,“ sagði hún í viðtali við Fox sjónvarpsstöðina í júní. Það var þó hún sem hvatti Trump til að hefja á ný daglega stöðufundi um kórónuveirufaraldurinn í Bandaríkjunum og hefur forsetinn fylgt því ráði nú í sumar.

epa08621621 (FILE) - American Republican campaign manager Kellyanne Conway (C-L) and her husband George Conway (C-R) arrive for the Candlelight Dinner at Union Station in honor of President-elect Trump in Washington, DC, USA, 19 January 2017  (reissued 24 August 2020). Counselor to the President Kellyanne Conway has announced that she will leave the white house at the end of August 2020. Also her husband George Conway is withdrawing from The Lincoln Project.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kellyanne Conway með eiginmanni sínum George. Starf hennar í Hvíta húsinu hefur valdið núningi milli þeirra hjóna.

 

Hefur valdið núningi í fjölskyldunni

Conway hefur sjálf sagt að hún láti af störfum til að sinna fjölskyldu sinni betur og að hún muni tilkynna síðar hvað hún taki sér fyrir hendur í framtíðinni.

Fréttaritari DR segir engan vafa leika á að vinna hennar í Hvíta húsinu hafi haft valdið núningi í fjölskyldunni. Maður hennar, George Conway, hefur alla tíð verið berorður í andstöðu sinni við forsetann sem hann hefur kallað geðsjúkling og siðblindingja.

Hann hefur lengi tillheyrt Lincoln Project, hópi andstæðinga Trumps innan Repúblikanaflokksins, en tilkynnti á sama tíma og kona hans sagði upp störfum í Hvíta húsinu að hann ætlaði hann ætlaði að hætta störfum þar.

Conway hjónin eiga eina dóttur, hina 15 ára gömlu Claudiu. Hún hefur sakað móður sína um sjálfselsku og að láta peninga og frægð ráða því að hún starfi fyrir Trump. Hefur hún sagst fyrirlíta starf móður sinnar sem hafi valdið sér miklum þjáningum.