Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Starfsmaður dagdvalar Eirar greindur með COVID

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Einn starfsmaður á dagdvöl fyrir heilabilaða á Eir í Grafarvogi í Reykjavík hefur verið greindur með COVID-19. Dagdvölin var því lokuð í dag og verður lokuð í fyrramálið. Stjórnendur funda um stöðuna í fyrramálið og ákveða næstu skref, að sögn Kristínar Högnadóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunarsviðs á Eir, Hömrum, Skjóli og öryggisíbúðum Eirar.

Starfsmaðurinn var í vinnu í síðustu viku og tekin hafa verið sýni úr þeim sem taldir eru hafa verið útsettir fyrir smiti. Allir sem starfsmaðurinn sinnti og þeir starfsmenn sem hann umgengst eru komnir í sóttkví. Ekki var unnt að fá upplýsingar, á þessu stigi, um hve margir það eru. 

Í dagdvölinni fær fólk með heilabilun þjálfun og þjónustu og koma um tuttugu og fimm manns þangað reglulega. Sumir koma daglega og aðrir sjaldnar. Það verður rætt á fundinum í fyrramálið hvort og þá hvernig hægt verði að hafa opið þar áfram. 

Á dögunum fóru fjórir starfsmenn hjúkrunarheimilisins Hamra í Mosfellsbæ og tíu íbúar í sóttkví eftir að einn starfsmanna hjúkrunarheimilisins greindist með COVID-19. Kristín segir að allir þeir sem þóttu útsettastir fyrir smiti, í þeirri einingu þar sem starfsmaðurinn vinnur, hafi farið í tvær skimanir og reynst neikvæðir. Í fyrramálið verða allir íbúar skimaðir. Reynist allir neikvæðir verður hægt að aflétta sóttkví. 

Kristín Högnadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunarsviðs á Eir, Hömrum og Skjóli og öryggisíbúðum Eirar. Kórónuveirusmit kom upp hjá starfsmanni Hamra.
Kristín Högnadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar. Mynd: RÚV