Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Skólaopnun: próf á bresku stjórnina

24.08.2020 - 17:29
Mynd: EPA / EPA
Fjöldi nýrra COVID-19 smita í Bretlandi hefur hangið í kringum þúsund á dag í tæpa tvo mánuði. Smitin hafa verið staðbundin og tekið á þeim með staðbundnum samskiptatakmörkunum. Nú þegar skólaárið er að byrja er eitt helsta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar að sjá til þess skólar taki aftur til starfa. Nokkuð sem mistókst í vor.

Framvinda COVID-19 í Bretlandi: svipað mynstur og víða annars staðar

Framvinda veirufaraldursins í Bretlandi fylgir svipuðu mynstri og annars staðar: smitin ekki horfið en hangið föst, í kringum þúsund tilfelli á dag. Ekki há tala í landi með um 60 milljónir íbúa en nóg til að skapa gróðarstíu hópsmita við ákveðnar aðstæður.

Smitin at tvennum toga

Smitin eru einkum af tvennum toga: í kringum vinnustaði þar sem fólk vinnur í návígi, gjarnan við matvælaframleiðslu. Til dæmis í eftirréttaverksmiðju Bakkavarar í Nottinghamskíri sem glímir við hópsmit um þessar mundir. Og svo smit á skemmtistöðum og krám. Og eins og á Íslandi og víðar: mest ungt fólk sem smitast.

Ekki landslokun heldur staðalokanir

Í Englandi sæta nú fimm svæði hertum takmörkunum, í Norður-Englandi og í kringum Luton-flugvöll í nágrenni höfuðborgarinnar. Skotar glíma líka við staðbundin hópsmit. Nú síðast í skóla í Dundee: 17 kennarar smitaðir og skólinn í sóttkví næstu tvær vikurnar.

Smitrakning lykilatriði í staðbundnum aðgerðum

Það var ljóst frá því í vor, þegar veirutilfellum fór fækkandi, að þar með væri veirusagan ekki öll, mætti eiga von á frekari smitum. Það lá þá þegar í loftinu að aðeins í ýtrustu neyð yrði Bretlandi öllu aftur lokað eins og var í mars og apríl. Staðbundnar aðgerðir væru lausnin, smitrakning þá lykilatriði.

Heimsins besta rakningarkerfi enn ekki tilbúið, heldur ekki nothæft kerfi

Maí var mánuður stórra loforða um veiruvarnir. Þann 10. maí sagðist Boris Johnson forsætisráðherra nokkuð viss um að strax 1. júní byggju Bretar ekki aðeins við rakningarkerfi heldur heimsins besta rakningarkerfi.

Það er skemmst frá því að segja að kerfið er ekki enn tilbúið. Ýmsir hafa bent á að Bretar þurfi ekki endilega besta kerfi í heimi, dugir að það virki. Nú er því lofað að rakningarkerfi verði til reiðu í október.

Hressilegt en oft ónákvæmt orðfæri forsætisráðherra

Í maí var forsætisráðherra líka tíðrætt um að ef smit ágerðust þegar fram í sækti, þá yrði stjórnin eins og slökkviliðið, tilbúin. Tilfellin yrðu bara lamin í hausinn, líkt og gert er í leik, sem er oft að finna í skemmtigörðum hér, kallast ,,whack-a-mole,“ lemja moldvörpur í hausinn þegar þær skjóta óvænt upp kollinum.

Dæmi um hressilegt orðfæri forsætisráðherra en þótti ekki sérlega upplýsandi um hvernig yrði í raun tekið á nýjum smitum þegar og ef með þyrfti. 

Eftir einkunnahringl: kemst skólastarf í gang?

Þessa dagana beinist öll athyglin að skólunum. Eftir vandræðagang í kringum stúdentsprófseinkunnir og lokaeinkunnir af grunnskólastigi er spurningin hvort skólastarf fari aftur af stað þegar skólaárið hefst nú í byrjun september. 

Stjórninni mistókst að opna skólana fyrir sumarfríið

Skólarnir áttu að taka til starfa fyrir sumarfrí en það tókst ekki, sem var nokkur ósigur fyrir ríkisstjórnina. Skólarnir töldu sig ekki hafa nægar leiðbeiningar frá yfirvöldum, foreldrar treystu ekki fullyrðingum forsætisráðherra og fleiri um að það væri ekkert að óttast. 

Tangarsókn til að opna skólana

Nú er stjórnin greinilega í tangarsókn til að opna skólana. Um helgina birtu landlæknar bresku landshlutanna fjögurra opið bréf þar sem þeir hnykktu á að ekkert væri án áhættu. Þó mun verra fyrir krakka að komast ekki í skóla heldur en næmi hugsanlegri áhættu þeirra af Covid-smiti í skólanum. Alveg ljóst að skólalokanir hafa ýtt undir félagslegt óréttlæti, bitnað verst á börnum efnalítilla foreldra.

Verra fyrri börn að fara ekki í skólann heldur fara

Í viðtali um helgina hnykkti Chris Whitty landlæknir Englands á þessum skaðvænu félagslegu áhrifum skólalokana. Börnum stafaði almennt lítil hætta af veirunni en skaðinn af því að vera án skólagöngu væri alveg ljós. Út frá áhættumati væri ljóst að það væri betra að börn færu í skóla. Fleiri börn myndu skaðast á að fara ekki í skóla frekar en fara, jafnvel á þessum faraldstímum.

Stjórnarþingmenn hugsi yfir fáti og fumi forsætisráðherra og stjórnar hans

Það eru ekki aðeins stjórnarandstæðingar sem telja stjórn Boris Johnson, í veiruglímunni og nú í skólamálum, einkennast af vanhæfni og getuleysi. Eftir fát og fum kraumar óánægjan í hans eiginn flokki og 80 þingsæta meirihluti virðist ekki jafntraustur og í fyrstu. Frekari ófarir gætu því verulega skaðað traustið á forsætisráðherra og stjórn hans. Sem gerði þá veiruaðgerðir, oft óvinsælar aðgerðir, enn erfiðari.

 

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir