Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ráðherrar fara í seinni sýnatöku í dag

Ríkisstjórn fundar á Suðurlandi
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. Ríkisstjórnin fundaði á Suðurlandi á þriðjudag.  Mynd: RÚV
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar, að frátöldum Svandísi Svavarsdóttur og Ásmundi Einari Daðasyni, fara í síðari skimun í dag eftir að hafa snætt á Hótel Rangá á þriðjudag. Í síðustu viku greindist starfsmaður hótelsins jákvæður og nokkrir gestir reyndust smitaðir.

Ráðherrarnir voru boðaðir í tvöfalda sýnatöku í kjölfarið. Niðurstöður fyrri prófana voru allar neikvæðar. Þeir fara í síðari sýnatökuna í dag, ýmist á heilsugæslustöðvum eða hjá Íslenskri erfðagreiningu. Ráðherrarnir þurfa að viðhafa smitgát meðan þeir bíða eftir niðurstöðum síðari sýnatöku. 

Ríkisstjórnarfundur er fyrirhugaður á morgun. Verði niðurstöður sýnatökunnar í dag neikvæðar verður óhætt fyrir ráðherrana að mæta á fundinn í eigin persónu.