Páll á Húsafelli fær leyfi til að rífa legsteinahúsið

24.08.2020 - 10:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV fréttir
Páll Guðmundsson, listamaður á Húsafelli, hefur fengið leyfi hjá byggingafulltrúa Borgarbyggðar til að rífa umdeilt legsteinahús. Húsið varð kveikjan að dómsmáli þar sem Páll var dæmdur til að fjarlægja það. Byggingafulltrúa hefur verið falið að gefa út niðurrifsleyfi.

Héraðsdómur Vesturlands dæmdi Pál um miðjan síðasta mánuð til að fjarlægja legsteinahúsið innan tveggja mánaða. Eigandi gistiheimilis á næstu lóð krafðist þess að Páli yrði einnig gert að fjarlægja pakkhús en dómurinn hafnaði þeirri kröfu. 

Páll sótti um leyfi til að rífa legsteinahúsið í byrjun mánaðarins. Fram kom í beiðni listamannsins að hann þyrfti að vera búinn að rífa húsið fyrir 14. september því annars þyrfti hann að greiða nágranna sínum dagsektir.  Undirbúningur fyrir niðurrifið væri langt kominn. 

Páll minnti jafnframt á að hann hefði ekki verið í þessari stöðu ef stjórnsýslumeðferð Borgarbyggðar á deiliskipulagi hefði staðist formkröfur. RÚV greindi frá því um miðjan þennan mánuð að lýsing á aðalskipulagi væri í farveginum sem gæti gert legsteinaskála Páls löglegan.

Fram kom í Skessuhorni fyrr í þessum mánuði að reynt hefði verið að miðla málum undir handleiðslu séra Geirs Waage en að sáttafundurinn hefði engu skilað. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi