Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Mann langar bara til að komast heim“

24.08.2020 - 20:16
Mynd: RÚV / Ljósmynd
Mann langar bara til að komast heim. Þetta segja María Sigurðardóttir og Ólafur Þór Guðmundsson, hjón frá Ísafirði sem hafa undanfarna fjóra daga verið í sóttkví á Hótel Keflavík eftir 11 mánaða dvöl á Kanaríeyjum. Þau segja að prýðilega hafi farið um þau en sjá nú fyrir endann á sóttkvínni.

María og Ólafur komu frá Kanaríeyjum á miðvikudagskvöldið. Dvölin ytra varð nokkuð lengri en til stóð vegna útgöngubanns og stopulla flugferða. Þau völdu að fara í sóttkví á hótelinu vegna heimilisaðstæðna og láta vel af sér þar en segja ýmsan kostnað fylgja þessu fyrirkomulagi.

„Þannig að við komumst ekki til landsins nema við tækjum flugið frá Kanarí til Tenerife, þeir fara að hætta að fljúga þannig að við drifum okkur,“ segir Ólafur. 

María segir að ekki sé um annað að ræða en að sætta sig við þá röskun sem fylgir því að fara í sóttkví. „Það verður bara að vera þannig. Maður verður að fylgja reglum. Við megum fara út í sólbað og vera úti að reykja. Við megum vera hér,“ segir hún.

Þeim finnst að nokkuð hafi skort á upplýsingagjöf vegna framkvæmdar sóttkvíarinnar. Þau séu ekki með snjallsíma og fari lítið á netið og hafi fengið aðstoð frá syni Ólafs.  „Við höfum bara ekkert þorað að fara neitt. Við förum ekkert, við erum bara hér,“ segir María.

Hún segir líðan þeirra hjóna þokkalega. „En mann langar bara til að komast heim.“