Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hlutabótaleiðin úrræðið sem gagnaðist langbest

24.08.2020 - 14:03
Næstum hvert einasta herbergi á Hótel Húsafelli hefur verið bókað í sumar. Móttökustjórinn þar segir að enn sé bókað fram á haustið, en harmar að hlutabótaleiðin standi fyrirtækjum ekki lengur til boða.

Líkt og víðar hrönnuðust inn afbókanir á Hótel Húsafelli þegar COVID-19 kom til landsins. Hótelið lokaði í tvo mánuði í vor. Nóg hefur hins vegar verið að gera síðan þá og Íslendingar sóst sérstaklega í tilboðspakka hjá hótelinu.

„Vonandi verður haustið jafn gott og sumarið hefur verið, af því það hefur verið nánast fullt hjá okkur dag eftir dag. Það kom okkur mjög á óvart og við erum eiginlega alveg standandi hlessa á þessu enn þá,“ segir Edda Arinbjarnardóttir, móttökustjóri hótelsins.

Fjöldatakmarkanir í mat

Gripið hefur verið til ráðstafana vegna hertra sóttvarnarreglna. Meðal þeirra eru aukin þrif og eins fjöldatakmarkanir í matsal. Edda segir það falla gestu misvel í geð.

„Það eru þessar fjöldatakmarkanir í kvöldmat og morgunmat sem sumir eru kannski ekki hressir með. En skilja þetta á endanum af því þetta er gert öllum til hagsbóta.“

Hlutabótaleiðin gagnaðist best

Þótt Edda voni að það rætist jafn vel úr vetrinum og gerðist í sumar segir hún að fram undan sé óvissa. Hún sýtir að hlutabótaleiðin standi ekki lengur til boða og telur hana besta úrræðið ef harðnar í ári.

„Hún gagnaðist eiginlega langbest fyrir okkur.“

Telurðu að það hefði átt að framlengja hana?

„Það væri mjög gott skref að gera það, af því að nú er búið að loka landinu. Allt það sem var fram undan í vetur, það hverfur bara alveg eins og sumarið hvarf með erlenda gesti hingað.“