Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ágæt makrílveiði en langt á miðin í Smugunni

24.08.2020 - 13:43
Vinirnir Smári Geirsson og Guðmundur Bjarnason fyrrum starfsmannastjóri og stjórnarmaður í Síldarvinnslunni fór á makríllveiðar með Berki NK haustið 2014.
 Mynd: svn.is
Eftir rólega byrjun á makrílveiðum hefur ræst úr vertíðinni og íslensk skip hafa almennt náð góðum afla í Smugunni. En þangað er löng sigling og flóknara að skipuleggja veiðar þar en þegar veitt er í íslensku lögsögunni.

Makrílvertíðin hefur staðið í rúma tvo mánuði og nú er alfarið veitt í Smugunni. Vertíðin hófst fyrr en venjulega en útgerðin vildi ná sem mestum afla í íslensku lögsögunni þann stutta tíma sem makríllinn hélt sig þar.

Ánægður með veiðina í Smugunni.

„Það var tregt framan af og mikið fyrir þessu haft. Síðan eftir að veiðin færðist út í Smugu þá hefur bara verið mjög góð veiði,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnsunnar.

Erfiðara að samræma veiðar og vinnslu

Makríllinn er erfiður viðureignar, fer hratt yfir í torfum og getur hofið fyrirvaralaust. Þannig hafa komið dagar þar sem ekkert veiðist en góður afli verið inn á milli. En það er flóknara að stilla saman veiðar og vinnslu þegar veitt er í Smugunni, en þegar veiðin er hér við landið. „Það er mun lengra að sækja fiskinn og erfiðara náttúrulega að stýra veiðum og vinnslu í samhengi þegar er ekki alveg stöðug veiði,“ segir Gunnþór. „En ég held að það hafi bara gengið ótrúleg vel hjá öllum að laga sig að því.“

Rúm 100 þúsund tonn komin á land

Það eru um 105 þúsund tonn af makríl komin á land af 167 þúsund tonna kvóta. Það segir Gunnþór til marks um að þetta sé orðin góð vertíð þó enn sé talsvert óveitt af kvótanum. „Ég vona bara að veiðin haldist svipuð fram undir miðjan september, þá held ég að þetta takist allt.“