Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skortur á klinki í umferð í Bandaríkjunum

23.08.2020 - 16:23
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Ein af ótal hliðarafleiðingum af kórónuveirufaraldrinum er skortur á skiptimynt í umferð. Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti fyrr í sumar að framboð á klinki í umferð hefði hríðminnkað og hóf að skammta úthlutun á klinki.

Samloka í stað skiptimyntar

Myntslátta dróst saman í vor vegna samkomutakmarkana og undirmönnunar  en notkun á klinki í viðskiptum hefur einnig dregist gífurlega saman. Verslanir eru farnar að bjóða viðskiptavinum upp á samlokur og drykki í stað skiptimyntar.

Nú hefur herferð verið hrundið af stað sem ber heitið Komum klinkinu í umferð þar sem bandaríski seðlabankinn og myntsláttan hvetja landsmenn til að borga fyrir nauðsynjavörur með klinki eða leggja það inn í banka.

Unnið er hörðum höndum að því að framleiða skiptimynt og stefnir í að aldrei verði meiri mynt framleidd á einu ári í tuttugu ár í landinu, samkvæmt Dave Ryder, forstjóra bandarísku myntsláttunnar. Hann biðlar til fólks að nýta myntina þar sem vandinn sé ekki lítið framboð heldur lítið hringstreymi. 

Skortur á skiptimynt í umferð í ágúst 2020.

Sóttu klink í foss sædýrasafnsins

Starfsmenn á sædýrasafni í Norður-Karólínu brugðu á það ráð í vikunni að skrúfa fyrir foss sem prýddi garðinn og sækja klink sem safnast hafði upp á vatnsbotninum á síðastliðnum fjórtán árum. Nam upphæðin 8.563 dollurum, tæplega 1,2 milljón íslenskra króna. Peningarnir voru gefnir til dýraverndar og klinkinu komið aftur í umferð í leiðinni.