Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vilja losna við 2.700 tonn af ammóníum-nítrati

22.08.2020 - 03:31
Erlent · Afríka · Líbanon · Senegal
Mynd með færslu
 Mynd: R. Elaine - Wikimedia Commons
Sprengingin ógurlega í Beirút-höfn á dögunum varð til þess að hafnaryfirvöld í Dakar - og stjórnvöld í Senegal - róa nú að því öllum árum að losna við 2.700 tonn af ammóníum-nítrati, sem geymt er í vöruskemmu við höfnina í Dakar. Þetta er sama efni og sprakk í Beirút, og nokkurn veginn jafn mikið magn - og rétt eins og í Beirút er stutt í fjölmenn íbúða- og verslunarhverfi.

BBC hefur eftir embættismönnum að ammóníum-nítrat birgðirnar séu hluti af stærri sendingu sem á að fara til Malí. 350 tonn hafa þegar verið flutt á áfangastað, en 2.700 tonn eru enn í skemmunni. Eigandi efnisins hefur farið fram á að fá að geyma það þar áfram, en umhverfisráðuneyti Senegals hefur ekki veitt heimild til þess og nú hefur verið þrýst á eigandann að fjarlægja efnið hið snarasta. samkvæmt AFP-fréttastofunni.

Notað í áburð og sprengjur

Ekki hafa fengist upplýsingar um eiganda efnisins né til hvers á að nota það í Malí, þar sem valdarán var framið í vikunni, en ammóníum nítrat er einkum notað í tvennum tilgangi: Til áburðarframleiðslu fyrir landbúnaðinn og í sprengiefni. Þá er ekki vitað hversu lengi efnið hefur verið í vöruskemmunni. Nær 200 manns týndu lífi í sprengingunni í Beirút, þúsundir slösuðust, hundruð þúsunda misstu heimili sín og gríðarlegt tjón varð á mannvirkjum