Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rannsaka ritmenningu og bókagerð Þingeyraklausturs

Rannsaka ritmenningu og bókagerð Þingeyraklausturs

22.08.2020 - 20:17

Höfundar

Bútur af bókaleðri, innsiglishringur og borði með ævafornu letri er meðal þess sem fundist hefur í fornleifarannsóknum í rústum Þingeyraklausturs. Þar á að rannsaka þá miklu ritmenningu og bókagerð sem fram fór í klaustrinu.

Á Þingeyrum var rekið klaustur í meira en fjórar aldir og þar voru rituð og gefin út mörg af merkustu handritum Íslendinga. Flateyjarbók þar á meðal. 

Í fyrsta sinn sem leitað er leifa eftir gerð handrita og bóka

„Það er búið að rýna mjög mikið í þessi rit, hvað stendur í þeim, en það hefur ekki áður verið leitað sem sagt leifa eftir bókagerðina sjálfa,“ segir Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í forleifafræði við HÍ, sem stýrir uppgreftrinum. En hún segir ekki viðbúið að þarna finnist heillegar bækur eða handrit. Frekar ummerki um bókagerðina, sútun skinna og þess háttar. „Þetta voru nú kálfskinn mest, við leitum að dýrabeinum og þess háttar. Og svo náttúrulega ýmiss konar leifum, litunarsteinum og öðru sem að fylgdi þessu.“

Minjar fyrir og eftir klausturtímann 

Uppgröfturinn hófst 10. ágúst og áætlað er að grafa í þrjár vikur í sumar. Eftir að hafa grafið í gegnum leifar yngri bygginga, ofan á sjálfum klausturrústunum, er hópurinn nú að nálgast klausturtímann. „Og það eru að koma upp gripir sem gætu verið frá þeim tíma. En við erum líka að finna gripi sem eru frá sextándu öld, klaustrinu var nú lokað á sextándu öld,“ segir Steinunn.

Ýmsir gripir þegar komið í ljós

Meðal annars hefur fundist leðurbútur sem Steinunn telur að gæti hafa verið utan um bók, innsiglishringur og nokkrar bænaperlur. Einnig borði með höfðaletri, eða gotnesku letri sem er eldra. „Þetta gæti verið vísun í einhvern biblíutexta.“

Gæti orðið áratuga verkefni

Þingeyraklaustur var gríðarstórt og Steinunn segir þau aðeins ná að grafa í litlum hluta rústanna í sumar. „Þannig að þetta gæti orðið áratuga verkefni ef það yrði haldið áfram stöðugt. En við erum að gera okkur vonir um að geta verið hérna í nokkur ár, fimm ár kannski.“

Tengdar fréttir

Austurland

Rannsaka fornar hamfarir og fyrstu byggð í Seyðisfirði

Vestfirðir

Kortleggja fornleifar í þrívídd og með hitamyndum

Sveitarfélagið Skagafjörður

Fornleifar fundust óvænt í riðuaðgerðum

Norðurland

Rannsakar svartadauða í Þingeyrarklaustri