Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lónið virðist hafa tæmst mjög snöggt

22.08.2020 - 17:16
Mynd: RÚV/Veðurstofa Íslands / RÚV
Hlaup og flóð úr Langjökli á mánudagskvöldið átti upptök í lóni við jaðar Langjökuls suður af Eiríksjökli. Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að lónið virðist hafa tæmst mjög snöggt. Flóðið ofan við Húsafell hafi verið stærra og flóðtoppurinn sneggri en neðar í Hvítá.

Komin skýr mynd á hvað átti sér stað

Starfsmenn Veðurstofunnar fóru í  könnunarflug á staðinn í fyrradag. Einnig mældu sérfræðingar Veðurstofu vatnsyfirborð ofan í vatnsstæði lónsins. Vatnsborð lónsins lækkaði um fimm metra við flóðið og tæmdist því sem næst. Lónið hafði stækkað samfara hörfun jökuljaðarsins á undanförnum árum og nú þarf að fylgjast með hvort útfall lónsins lokist aftur og vatn fari að safnast í lónið að nýju eða hvort sírennsli verði úr lóninu. Lokist útfallið er hugsanlegt að reglulega hlaupi úr lóninu á næstu árum.

Bráðabirgðaniðurstöður vatnshæðarmælis Veðurstofunnar benda til þess að rúmmál flóðsins hafir verið um 3,4 milljónir rúmmetra.

Fundu ummerki um að reglulega hafi flætt á undanförnum árum

„Við sjáum að flóðfarvegurinn undir jöklinum hefur greinilega verið þarna áður,“ segir Tómas í samtali við fréttastofu. „Ummerki um flóðið þegar flóðfarvegurinn undir jöklinum sígur saman eru lægð í yfirborði jökulsins og í  þessari lægð er snjór frá fyrri vetri. Það þýði að flóð hafi farið undir jökul áður á sama stað sem eru minni og ekki hafi verið tekið eftir.“ 

Það þýði að flóð hafi farið undir jökul áður á sama stað en þau voru minni og menn tóku ekki eftir þeim. „Þessi flóð hafa væntanlega verið að koma með endurteknum hætti núna nokkur undanfarin ár,“ segir Tómas. 

Líklegt að safnist aftur í lónið og hlaupi að nýju

Tómas segir það ráðast á næstu vikum hvort vatnsfarvegur grói saman aftur og það fari að hlaupa í lóninu að nýju. Allar líkur séu á því. „Þá skapast hætta á öðru svona flóði og við verðum bara að skoða hvaða viðbúnaður verður við því.“ Ekki sé búið að taka ákvörðun um hvernig skuli bregðast við.