Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Yfir 250.000 hafa dáið úr COVID-19 í rómönsku Ameríku

21.08.2020 - 06:42
epa08615343 People walk past a mural honoring health workers at Hospital das Clinicas, in Sao Paulo, Brazil, 20 August 2020. The creators of the murals, Waldir Grisolia and Roberto Alves, had the participation of health professionals in the realization of the graffiti.  EPA-EFE/Fernando Bizerra
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Yfir 250.000 manns hafa dáið úr COVID-19 í rómönsku Ameríku svo vitað sé og nær sex og hálf milljón manna smitast af kórónaveirunni sem veldur sjúkdómnum, samkvæmt samantekt Reuters-fréttstofunnar. Inni í þessum tölum eru öll ríki í því sem kalla má rómönsku Ameríku, allt frá Mexíkó og suðurúr. Þar hafa um og yfir 3.000 dauðsföll af völdum COVID-19 verið staðfest á degi hverjum að undanförnu.

 

Sem fyrr er staðan verst í Brasilíu, þótt hún hafi heldur skánað frá því sem verst var. Þar létust rúmlega 1.200 manns úr COVID-19 í gær og rúmlega 45.000 ný smit voru staðfest. Þar með eru smittilfellin orðin ríflega þrjár og hálf milljón talsins í Brasilíu og dauðsföllin 112.300.

Í Mexíkó, þar sem staðan er næst verst, hafa rúmlega 59.000 dáið úr COVID-19 og yfir 540.000 sýkst. Eilítið fleiri hafa smitast í Perú, en ríflega helmingi færri, eða tæplega 27.000, hafa dáið af þessum orsökum. Kólumbía er næst á þessum svarta og dapurlega lista með ríflega hálfa milljón smita og yfir 16.000 dauðsföll. Næst á eftir kemur Chile, þar sem rúmlega 390.000 manns hafa smitast og tæplega 11.000 lotið í lægra haldi fyrir veirunni svo staðfest sé.