Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjúkrabílum Toronto breytt til að draga úr mengun

21.08.2020 - 17:40
Mynd með færslu
 Mynd: CC - Wikimedia
Sjúkrabílar Toronto-borgar í Kanada verða búnir sólskjöldum sem ætlað er að virkja sólarorku til að knýja þá. Sömuleiðis verði drifrás þeirra skipt út fyrir blendingsvélar sem nota raforku og jarðefnaeldsneyti.

Tilgangurinn er að draga úr mengun í þessari stærstu borg Kanada. Markmið ríkisstjórnar Kanada er að draga úr losun kolefnis um 30% frá því sem hún var 2005 fyrir árið 2030.

Sú ákvörðun byggir á Parísar-samkomulaginu. Heildarframlag ríks og borgar til verkefnisins í Toronto nemur 2,8 milljónum kanadadala, jafngildi um 300 milljóna króna.

Það segja borgaryfirvöld í Toronto nægja til að koma sólskjöldum fyrir á þaki um 280 farartækja. Búnaðurinn framleiðir að sögn næga orku til að knýja margvíslegan björgunarbúnað bifreiðanna.

Auk þess verði unnt að skipta um aflrás ríflega 100 sjúkrabíla. Þessi aðgerð segja borgaryfirvöld að jafngildi því að 2.900 bifreiðar hverfi af götum borgarinnar.