
Segir 32 milljónir frá ríkinu skipta miklu
Sex sveitarfélög, sem mjög eru háð afkomu ferðaþjónustunnar, fengu samtals 150 milljónir króna úr ríkisstjóði til að bregðast við hruni í greininni vegna COVID-19. Þar af fékk Skútustaðahreppur 32 milljónir króna.
Erfiðir mánuðir framundan
Því var spáð að útsvarstekjur þar gætu dregist saman um allt að 130 milljónir en Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri, segir að afkoman í sumar hafi verið betri en reiknað var með. „En á sama tíma liggur fyrir að haustið verður erfitt í ferðaþjónustu. Þannig að við gerum ráð fyrir að þetta muni hafa mikil áhrif á rekstur sveitarfélagsins.“
Fjarfesta í nýsköpun og innviðum
Sveinn segir að 32 milljónir komi augljóslega ekki í staðinn fyrir það tekjutap sem líklegt er að verði hjá sveitarfélaginu næstu mánuði. Þessir peningar skipti engu að síður miklu máli. „Þessi fjármunir verða nýttir til að ýta undir nýsköpun, fjölbreyttara atvinnulíf og að styðja við samfélagið á þessum krefjandi tímum. Í rauninni að sækja frekari fjárfestingu og fjárfesta í atvinnulífi og verðmætasköpun svæðisins.“
Uppsagnir framundan í ferðaþjónustunni
Hann segir þegar ljóst að vinnustöðum í Mývatnssveit verði lokað í haust og fólk í ferðaþjónustu muni missa vinnuna. Því sé afar mikilvægt í þessarri stöðu að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið. „Þannig að sveitarstjórn er í rauninni að vinna, má segja, annarsvegar með það að hafa reksturinn í eins góðu jafnvægi og mögulegt er en á sama tíma að fjárfesta til lengri tíma.“