Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ræða næstu Brexitskref

21.08.2020 - 11:17
Brexit · Erlent · ESB · Spegillinn
Mynd: EPA-EFE / REUTERS POOL
Þessa vikuna hittast samninganefndir Breta og ESB til að ræða næstu skref Brexit-mála. Sem fyrr fer lítið fyrir fréttum af stórstígum árangri þó flestir búist við einhvers konar samningi. Á endanum.

Fundartörn þessu vikuna

Í samningum Breta við Evrópusambandið um framtíðarsambandið eftir Brexit er skipst á að vinna heimavinnuna og hittast. Veirufaraldurinn setti strik í Brexit-reikninginn eins og fleira en nú eru menn farnir að hittast aftur og ein slík törn stendur þessa vikuna. Og spurning er alltaf sú sama: munu nást samningar um framtíðarsamband Breta og ESB eða ekki?

Martin forsætisráðherra Íra: það síðasta sem þarf nú er samningslaust Brexit

Írar eru mjög áfram um samninga enda eiga þeir mikið undir í þeim efnum. Nýlega hittust Micheál Martin forsætisráðherra Íra og Boris Johnson forsætisráðherra Breta. Martin kvaðst sannfærður um að Bretar vildu eindregið heildarsamning við Evrópusambandið og veirufaraldurinn gerði slíkan samning enn mikilvægari.

Það síðasta sem við þurfum nú er annað högg á hagkerfið, vísaði þar til Covid-19, og samningslaust Brexit yrði slíkt högg, sagði Martin eftir fund ráðherranna.

Írlandsheimsókn rifjar upp útgöngusamning Johnsons

Forveri Johnsons, Theresa May, sprakk á Brexit-limminu, tókst ekki að koma sínum útgöngusamning í gegnum þingið. Aðferð Johnsons til að hafa af samning var að samþykkja það sem May hafði sagt að enginn breskur forsætisráðherra myndi nokkru sinni samþykkja. Sem er að það gildi aðrar reglur á Norður-Írlandi en annars staðar í Bretlandi og því nokkurs konar landamæri milli Norður-Írlands og Bretlandseyja.

Eftir fundinn með Martin sagði Johnson að hann myndi frekar liggja dauður en samþykkja slík landamæri. – Vandinn er bara að þessi orð stangast á við útgöngusamninginn sem hann gerði í fyrra.

Fyrri ummæli Martins um skilningsleysi Johnsons

Í tengslum við fund forsætisráðherranna voru borin undir Martin ummæli hans sjálfs í ræðu frá í fyrra, Martin þá ekki forsætisráðherra, Johnson nýtekinn við embætti. Martin sagði þá að allir í Dyflinni, sem hefðu hitt Johnson meðan hann var utanríkisráðherra hefðu þá sögu að segja að Johnson hefði ekki sýnt snefil af skilningi á friðarsamningnum frá 1998, kenndum við föstudaginn langa. Martin er ekki fyrsti Írinn til að efast um skilning Johnsons á írskum málefnum.

Nei, Martin vildi ekki fara frekar út í þessa sálma en fyrri orð hans varpa óneitanlega ljósi á ummæli Johnsons nú um Brexit og Norður-Írland. En þar sem Johnson forðast fjölmiðla er aldrei auðvelt að spyrja hann.

Brexit strandar á því sama og áður: fiskveiðum og regluaðlögun

En aftur að Brexit-viðræðunum. Sem fyrr strandar á fiskveiðimálum, snúið mál sem nær aftur í þorskastríðin eins og Spegillinn rakti nýlega. Svo er það þetta hvernig Bretar eigi að fylgja regluverki ESB. Nokkuð sem breska stjórnin er ófús á og sem útilokar þá margt annað.

Barnier: afstaða Breta gerir samning ólíklegan

Fyrir tæpum mánuði síðan sagði Michel Barnier formaður samninganefndar ESB að frá sjónarhóli ESB yrði viðskiptasamningur að innihalda skýrar reglur um fylgni við regluverk ESB og sanngjarnan fiskveiðisamning.

Það þýðir einfaldlega, sagði Barnier, að þar sem Bretar hafna skýrum samkeppnisreglum og sanngjörnum fiskveiðisamning þá gera Bretar, að svo stöddu, viðskiptasamning ólíklegan.

Þröskuldurinn nú: ESB-réttindi breskra vörubílstjóra

Það virðist lítið hafa gerst á undanförnum mánuði en samningatörnum fylgja alltaf einhver fréttaefni. Þessa vikuna eru það réttindi vörubílstjóra. Líka írskt hagsmunamál þar sem landflutningar til og frá Írlandi fara um Bretland. Bretar vilja að breskir bílstjórar haldi fullum réttindum til að keyra alls staðar í ESB, ekki aðeins milli Bretlands og næstu nágranna. ESB tekur þetta ekki í mál, telur að þarna freisti Bretar þess að halda fullum ESB-réttindum. Allt fast í þessum efnum eins og fleirum.

Samningar þegar langt á eftir áætlun

Samningarnir ganga líka mun hægar en vonast var til. Í júlí átti þegar að vera búið að semja um fiskveiðimálin og fleiri mál, svo hægt væri að halda áfram með langan lista samningsatriða. Nú er talað um samning í október. Tímatakmörkin eru áramótin, þarf að semja fyrir þann tíma.

Mun semjast fyrir áramótin?

En aftur að stóru spurningunni: mun semjast fyrir áramótin? Barnier var ekki bjartsýnn fyrir mánuði, kannski til að fá Breta til að taka nú á honum stóra sínum. Þeir sem til þekkja telja að líklega verði samið. En samningurinn þá kannski aðeins útlínur sem hindra útgöngu án samnings sem Michail Martin og fleiri hafa varað við. En ef þannig semst, þá þyrfti að halda áfram að semja. Um ókomna framtíð.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir