Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Hendur hennar og hár lykta ekki af fiski“

„Hendur hennar og hár lykta ekki af fiski“

21.08.2020 - 18:49

Höfundar

Pólsk listahátíð var sett í dag í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Þar sýna pólskir listamenn verk sem sækja innblástur meðal annars í stöðu Pólverja á Íslandi og pólitískt ástand í heimalandinu.

Þegar við litum inn var hluti þeirra níu listamanna sem eiga verk á sýningunni að gera klárt. Þau búa öll hér á landi og Wiola sýningarstjóri gerir sjálf verk byggð á sögum sem hún safnar frá Pólverjum á Íslandi. „Ég hitti stelpu og notaði sögu hennar til að skapa þetta verk. Hún fellur á milli samfélaga, er ekki íslensk en samt ekki nógu pólsk,“ segir hún og les fyrir okkur texta undir blýantsteikningu af beinagrind fisks. „Engum líkar við Baski í hverfinu því eftir fjögurra ára starf í frystihúsinu fékk hún betra starf í verslun og hendur hennar og hár lykta ekki af fiski eins og hjá öðrum Pólverjum.

„Mér fannst bara mjög mikilvægt að benda á þá miklu flóru pólskra listamanna sem býr á Íslandi. Og hérna fyrir austan býr fjöldi Pólverja sem vinnur alls konar störf og það er mjög mikilvægt fyrir ekki síst börn þessa fólks að hafa mismunandi fyrirmyndir. Að kynnast menningu og listum síns lands og eiga kost á því að upplifa lista- og menningarviðburði á sínu móðurmáli, eða hjartamáli eins og sumir kalla það,“ segir Ragnhildur Ásvaldsdóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs.

Þjóðernishyggja og hópamyndun er til umræðu í Póllandi og í verki Lukas Bury er slagorð pólskra þjóðernissinna Wielka Biala, eða stóra hvíta, sett í nýtt samhengi - það er einnig nafn á tegund pólskra svína. „Þannig er hér listamaðurinn að deila á þennan sterka stuðning sem þjóðernishreyfingar hafa fengið núna undanfarið í Póllandi,“ segir Ragnhildur.

 Agnieszka Sosnowska bý í Hróarstungu á Héraði og hefur sýnt ljósmyndir sýnar víða en þetta er í fyrst sinn sem hún sýnir með öðrum Pólverjum. Hún er mjög ánægð með að framtakið í Sláturhúsinu. „Að hafa samhygð og eiga í tjáskiptum við hóp sem þú ert ekki hluti af og að reyna að setja þig í spor þeirra er mjög mikilvægt í öllum samskiptum,“ segir hún.

Í einu verkanna minnist Wiola þeirra Pólverja sem dóu, slösuðust eða misstu allt í brunanum á Bræðraborgarstíg í Reykjavík í sumar. Hún sýnir okkur mynd af býflugum. „Fjöldi og lögun býflugnanna táknar fórnarlömbin. Í miðjunni eru þeir sem dóu. Í textanum segir ul sie pali, eða búið brennur. Ef við viljum ekki skaða býflugu sem nálgast okkur í þeim hluta Póllands sem ég kem frá þá notum við ekki hendurnar heldur endurtökum, búið brennur, búið brennur og þá fer hún.“