Hafa ekki uppfært tilmæli á covid.is

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Almannavarnir hafa enn ekki uppfært upplýsingar um nálægðartakmörk á upplýsingavefnum covid.is. Víðir Reynisson sagði í samtali við fréttastofu á mánudag að upplýsingar á covid.is yrðu uppfærðar vegna ósamræmis milli tilmæla þar og í nýjustu auglýsingu heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir.

Fjallað var um ósamræmið í kjölfar þess að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefði ekki brotið sóttvarnarreglur þegar hún skemmti sér með hópi vinkvenna sinna á laugardaginn var.

Ummæli Þórólfs vöktu athygli í ljósi þess að á upplýsingavef Almannavarna og landlæknis covid.is kemur fram að samkvæmt gildandi takmörkunum í samkomubanni sé fólki, hvar sem það kemur saman og í allri starfsemi, skylt að hafa að minnsta kosti tvo metra á milli þeirra sem ekki deila heimili.

Strangari tilmæli á covid.is en í auglýsingu heilbrigðisráðherra

Tilmælin á upplýsingavefnum eru strangari en í auglýsingu heilbrigðisráðherra. Á covid.is segir að alls staðar þar sem fólk komi saman þurfi að hafa að minnsta kosti tvo metra á milli þeirra sem ekki deila heimili. Ljóst var að vinkonurnar gerðu það ekki á laugardagskvöld. 

Mynd með færslu
 Mynd: covid.is
Tilmælin samkvæmt covid.is

Í nýjustu auglýsingu heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir er hins vegar ekki kveðið á um skyldu fólks til þess að halda tveggja metra fjarlægð. Þar eru rekstraraðilar skyldaðir til að tryggja að hægt sé að halda tveggja metra fjarlægð milli fólks þar sem það kemur saman. Í klausu um nálægðartakmarkanir í auglýsingunni segir: „Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi, m.a. þeirri sem talin er upp í 3. gr., skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.“ 

Stóð til að breyta tilmælum á covid.is

Í framhaldi af þessu náði fréttastofa tali af Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni sem sagði í viðtali á mánudag að tilmælunum á covid.is yrði breytt til þess að tryggja að almenningur hefði aðgang að réttum upplýsingum um gildandi takmarkanir. Með tillögum sóttvarnalæknis hefði hann haft í huga að tveggja metra reglan ætti að gilda milli ótengdra aðila. Enn hafa upplýsingar til almennings ekki verið uppfærðar. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi