Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fylgdi ekki tilmælum og segir af sér  

21.08.2020 - 13:20
epa000279003 Vice President of Ryan Air Michael Cawley speaks during the Aviation Symposium 2004 in Vienna on Monday 20 September 2004.  EPA/Roland Schlager
 Mynd: EPA - APA
Yfirmaður ferðaþjónustustofu Írlands, Michael Cawley, sagði af sér í vikunni eftir að greint var frá því að hann væri í fríi á Ítalíu. Írum er heimilt að ferðast til Ítalíu en írsk yfirvöld hafa ráðið fólki frá óþarfa ferðalögum til útlanda.  

Ferðaþjónustustofa Írlands, Fáilte Ireland, hefur staðið fyrir herferðum síðustu mánuði þar sem íbúar Írlands eru hvattir til að ferðast innanlands í því skyni að styðja við innlenda ferðaþjónustu. Cawley hefur verið gagnrýndur fyrir að sýna af sér dómgreindarbrest og setja slæmt fordæmi með því að ferðast til Ítalíu.   

Í yfirlýsingu segist Cawley láta af störfum með mikilli eftirsjá. „Til þess að koma í veg fyrir að málið standi í vegi fyrir mikilvægum verkefnum stofnunarinnar hef ég ákveðið að segja af mér eftir sex ár í starfi.“  

Braut ekki reglur en fylgdi ekki tilmælum og sýndi dómgreindarbrest 

Ferðaþjónustustofan heyrir undir ferðamálaráðherra Írlands og hefur meðal annars það hlutverk að markaðssetja Írland sem ferðamannastað. Ferðamálaráðherrann, Catherine Martin, segir ljóst að Cawley geti ekki haldið embætti. „Það voru mikil vonbrigði að komast að því að Cawley hefði farið í frí til Ítalíu. Ég hringdi í hann í morgun og nú hef ég tekið við uppsagnarbréfi hans.“ 

„Ítalía er á grænum lista svo fólk sem kemur þaðan þarf ekki að fylgja neinum ákveðnum reglum. Hins vegar hafa stjórnvöld hvatt fólk til að sleppa öllum ónauðsynlegum utanlandsferðum. Stór hluti þjóðarinnar hefur fylgt þessum fyrirmælum þótt það geti verið erfitt og kostnaðarsamt,“ segir í yfirlýsingu ferðamálaráðherra.   

Talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa sagt athæfið sýna ótrúlegt dómgreindarleysi og skort á leiðtogahæfni. Þá hafa forsvarsmenn Samtaka veitingamanna gagnrýnt Cawley harðlega fyrir dómgreindarbrest og fyrir að setja slæmt fordæmi.   

Ráðherra sagði af sér í gær fyrir að brjóta sóttvarnarreglur 

Fréttastofa greindi frá því fyrr í dag að landbúnaðarráðherra Írlands hefði sagt af sér í gær eftir að hafa setið í kvöldverðarboði með áttatíu manns. Daginn áður tóku gildi hertar reglur þar í landi til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar og nú mega aðeins sex manns koma saman innandyra.