Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ferðast yfir hálfan hnöttinn til að tína ber

21.08.2020 - 17:00
Mynd: SVT/ARKIV. / SVT/ARKIV.
Á ári hverju ferðast þúsundir Taílendinga til yfir hálfan hnöttinn til að tína ber í skógunum í Norður-Svíþjóð. Vinnan er erfið og slítandi, launin lág og aðstæðurnar minna oft á mansal. Líkt og margar aðrar greinar hagkerfisins, hefur berjaframleiðsla verið í uppnámi vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Flytja út þúsundir tonna

Í víðáttumiklum skógum Svíþjóðar má finna ber af margvíslegu tagi. Síðsumars bláber og múltuber og svo skærrauð týtuber með haustinu. Á síðustu árum hafa ber orðið að vinsælli lúxusvöru víða um heim og nú er svo komið að Svíar flytja út þúsundir tonna af berjum á ári hverju, einkum bláberjum sem eru eftirsótt heilsuvara til að mynda í Japan.

En það er ekkert íhlaupaverk að tína þessar milljónir kílóa af berjum. Lengst af var það auðvitað hér í Svíþjóð eins og á Íslandi einkum almenningur sem brá sér í berjamó og tíndi til heimilisþarfa. En eftir fall Sovétríkjanna fór fólk frá fátækum ríkjum á borð við Pólland og Eystrasaltslöndin að leggja hingað leið sína í nokkrar vikur eða mánuði til að vinna í uppgripum við berjatínslu. Ekkert atvinnuleyfi þurfti til, bara ferðamannapassa. Berin má hver sem er tína. Það var á þessum tíma sem farið var að flytja bláber út í stórum stíl frá Svíþjóð. Um 90% berja sem eru tínd í Svíþjóð, eru flutt út.

Aðallega Taílendingar

Upp úr aldamótunum hættu þessar þjóðir að koma en í staðinn fjölgaði farandverkafólki frá fátækum ríkjum Austur-Asíu.

Undanfarin ár hafa það aðallega verið Taílendingar, einkum fátækir smábændur, sem hafa tínt sænsku berin. Yfir 7.000 komu hingað í fyrra til að tína ber.

Það er hins vegar allur gangur á því hve mikið fólk fær í eigin vasa. Árið 2009 var til dæmis óvenju lélegt berjaár og fjöldi fátæks verkafólks sem hafði greitt háar fjárhæðir til að komast á berjavertíð í Svíþjóð, fékk hverfandi tekjur. Margir urðu strand í Svíþjóð, áttu ekki fyrir farinu heim. Eftir þetta voru lög um berjatínslu hert þannig að dvalar- og atvinnuleyfi voru aðeins veitt ef ákveðin lágmarkslaun voru tryggð.

Þurfti að tína hálft annað tonn

Þrátt fyrir þetta getur verið erfitt að ná endum saman. Í fyrra var aftur lítið um ber nema á einstaka svæðum. Sænska ríkissjónvarpið ræddi þá við Niyom Sonsang sem hafði komið með fjölskyldu sinni til að tína ber. Ferðin kostaði sitt og til að koma út í plús, tapa ekki á ferðinni, þurfti Niyom að tína eitt og hálft tonn af bláberjum.

Og svo er algengt að ráðningarfyrirtæki í Taílandi hafi fé af fólki, svíki það um laun eða láni fyrir farinu til Svíþjóðar á afarkjörum. Taki jafnvel jarðnæði af fátækum smábændunum ef þeim tekst ekki að tína nógu mörg tonn af bláberjum í Svíþjóð til að geta greitt lánið sem þeir tóku fyrir ferðinni.

COVID-19 setur strik í reikninginn

Síðustu tvö ár hafa verið heldur léleg berjaár og frystigeymslur heildsalanna tómar. Þetta sumarið er berjasprettan betri. En heimsfaraldur COVID-19 setur strik í reikninginn.

Lengi vel var útlit fyrir að berjatínslufólkið frá Taílandi fengi ekki leyfi hjá þarlendum yfirvöldum til að fara til Svíþjóðar vegna mikillar útbreiðslu kórónuveirunnar. En í lok júlí gaf atvinnumálaráðuneyti Taílands grænt ljós á ferðalögin svo framarlega sem sænsk fyrirtæki gæta að smitvörnum og tryggja fólkinu lágmarkslaun.

Störf sem heilla ekki Svía

Nú er vonast til að berjatínslufólkið komi frá Taílandi þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Svíar fást ekki til þessara starfa enda er kaupið ekki hátt. Meðalverð sem heildsalar greiða fyrir kíló af bláberjum er tæpar 250 krónur þessa dagana. Kannski er það þó nóg til að freista fátæks bændafólks frá Taílandi eða óprúttinna aðila sem reyna að hagnast á striti og örvæntingu landa sinna.

Auk verkafólks frá Taílandi hefur nefnilega nokkur fjöldi Búlgara lagt leið sína til Svíþjóðar til að tína ber undanfarin ár. Kjör þeirra og aðstæður minna oft á mansal.

Hótað öllu illu

Fyrir nokkrum árum urðu hundruð búlgarskra farandverkamanna strand í Svíþjóð. Þeir sögu að þeim hefði verið lofað góðum tekjum fyrir að tína ber í Svíþjóð, en í raun hafi það aðeins fengið nokkrar krónur og verið hótað öllu illu.

Grunuðum var sleppt í þessu máli vegna skorts á sönnunum og sú er reyndar oftast raunin. Í umfjöllun sænska ríkissjónvarpsins SVT segir að glæpamennirnir beini sérstaklega sjónum sínum að fátæku og illa stöddu fólki í Búlgaríu. Því er lofað góðu kaupi en svo hótað og sagt að það skuldi fé fyrir ferðalag og gistingu.

Búa við slæmar aðstæður

Síðustu daga hefur talsvert verið fjallað um mál 80 búlgarskra karla, kvenna og barna nyrst í Svíþjóð. Fólkið hefst við í húsnæði sem dæmt hefur verið óíbúðarhæft og er talið að það sé að vinna fyrir mann sem hefur ítrekað verið dæmdur fyrir efnahagsbrot.

En án ódýrs vinnuafls væri jú ekki hægt að tína þessar þúsundir tonna af fyrsta flokks villtum sænskum bláberjum, og selja um allan heim. Nú, eða þá að berin yrðu talsvert dýrari.

Háð ódýru vinnuafli

Sannleikurinn er nefnilega sá að ríki í Vestur-Evrópu geta trauðla án ódýrs vinnuafls  erlendra ríkisborgara verið, líkt og Cornel Ban, lektor við Copenhagen Business School, benti á í grein í danska dagblaðinu Politiken í byrjun sumars. Án starfsfólks frá fátækari ríkjum Evrópusambandsins, myndi matvælaiðnaður í álfunni hrynja. Á síðasta ári hafi til dæmis um 300.000 farandverkamenn starfað í Þýskalandi, bara við spergilsuppskeruna.

Í berjabransanum í Svíþjóð viðurkenna menn að án þúsunda taílenskra bænda, myndu bláberin bara rotna í skóginum. Atvinnulausir Svíar fást sjaldan til að vinna þessi störf. Þau eru erfið, slítandi og illa launuð.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV