Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Evrópusambandið þrýstir á hvítrússnesk stjórnvöld

epaselect epa08616128 Belarusian opposition candidate for President, Svetlana Tikhanovskaya attends a press conference in Vilnius, Lithuania, 21 August 2020. Tikhanovskaya fled to Lithuania with her family following the 09 August Belarus presidential election. Opposition in Belarus alleges poll-rigging and police violence at protests following election results claiming that president Lukashenko had won a landslide victory in the 09 August elections.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
„Forsetinn hlýtur að átta sig á að það er löngu komin þörf fyrir breytingar," segir Svetlana Tikhanovskaya um Alexander Lúkasjenkó. Hún svaraði spurningum á blaðamannafundi í Vilníus í Litáen í morgun þar sem hún ítrekaði að efna yrði til nýrra forsetakosninga í Hvíta-Rússlandi.

Tikhanovskaya vill þó ekki staðfesta að hún gefi kost á sér að nýju. Hún segir að almenningur sætti sig ekki við að núverandi stjórnvöld haldi völdum og ofbeldið verði hvorki fyrirgefið né því gleymt.

Harðorð vegna glæparannsóknar

Tikhanovskaya sem nú dvelur í Litáen er harðorð vegna glæparannsóknar ríkisstjórnarinnar á meintum valdaránstilburðum stjórnarandstöðunnar. Leiðtogar Evrópusambandsins hvetja stjórnvöld til að láta af rannsókninni og segja hana tilraun til kúgunar.

Glæparannsóknin hófst þegar eftir að skipulagsráð stjórnarandstæðinga var sett á laggirnar. Nabila Massrali, talskona Evrópusambandsins, segir í yfirlýsingu að ráðið hafi verið stofnað til að hægt væri að eiga friðsamlegar samræður við stjórnvöld sem svara með ógnunum. Evrópusambandið ætlist til þess að núverandi yfirvöld í Hvíta-Rússlandi stígi skref í átt að lausn á yfirstandandi innanlandsvanda.

Tikhanovskaya brýnir allt það fólk, sem lagt hefur niður störf til að mótmæla niðurstöðum forsetakosninganna, til að ganga til liðs við skipulagsráð sitt. Tilgangur þess sé að finna friðsamlega leið til að skipta um valdhafa í Hvíta-Rússlandi.

Tikhanovskaya, sem er fædd 1982, steig sín fyrstu skref í stjórnmálum þegar hún bauð sig fram gegn Alexander Lúkasjenkó. Þá ákvörðun tók hún eftir að Sergei, eiginmaður hennar, aktívísti og iðjusamur bloggari, var handtekinn í maí. Hann var sjálfur í framboði gegn Lúkasjenkó. Tikhanovskaya starfaði sem enskukennari og túlkur áður en hún hóf afskipti af stjórnmálum.

Hvetur öll ríki til að virða fullveldi Hvíta-Rússlands

Tikhanovskaya vildi hvorki svara því hvort hún teldi líf sitt í hættu né hvort henni hefði verið hótað. Hún segir alla landsmenn vera skelkaða en yfirstíga þurfi óttann og horfa til framtíðar. Tikhanovskaya kveðst elska föðurland sitt og að þangað muni hún hverfa að nýju, „um leið og það er öruggt."

Tikhanovskaya hvetur öll ríki til að virða fullveldi Hvíta-Rússlands, aðspurð um hvort hún telji Rússa styðja Lúkasjenkó. Hvítrússar vilji ekki lengur lifa við lygar og blekkingar.

Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna lýsa yfir þungum áhyggjum af því að meira en hundrað mótmælendur séu enn í haldi og hvetja hvítrússnesk stjórnvöld til að sleppa þeim umsvifalaust.

Lúkasjenkó segir Bandaríkjamenn að baki mótmælunum

Alexander Lúkasjenkó forseti lofar nú að leysa úr vandamálum Hvíta-Rússlands á næstu dögum. Ríkisfréttastofan Belta greinir frá þessu. Loforðið gaf hann í ávarpi til verkafólks sem hann heimsótti í Dzerzhinsk suður af höfuðborginni Minsk. Hann segir að andófsmenn fái greitt fyrir að taka þátt í mótmælunum í landinu og sakar Bandaríkjamenn um að stjórna þeim.

Tilgangur Bandaríkjanna væri að mynda varnarbelti gegn Rússlandi, samansett af Eystrasaltslöndunum, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi. Lúkasjenkó sagði jafnframt að Evrópusambandið væri með í leiknum.

Hann bað verkafólkið um að hafa ekki áhyggjur af mótmælunum. Þau væru hans vandmál sem honum bæri að leysa og það myndi hann gera innan skamms. Alexander Lúkasjenkó gaf í skyn að hann ætlaði sér ekki að ræða við stjórnarandstöðuna heldur myndi hann bara tala við hópa verkafólks. „Sjáið bara til, ég er að tala við ykkur," sagði Lúkasjenkó við verkafólkið í Dzerzhinsk.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV