Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Átta smitaðir á Hótel Rangá, mögulega hundruð í sóttkví

Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson / RÚV
Átta hafa greinst smitaðir af COVID-19 eftir dvöl á Hótel Rangá á Hellu, einn starfsmaður hótelsins og sjö gestir. Smit var komið upp á hótelinu fyrir síðasta þriðjudag þegar ríkisstjórnin snæddi þar en ekki var vitað um það fyrr en í dag. Þetta staðfestir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir við fréttastofu.

Hundruð þurfi mögulega að fara í sóttkví

„Það voru aðilar sem voru þarna saman og svo eru aðilar sem tengjast ekki neitt sem hafa smitast,“ segir Þórólfur. Hann segir að verið sé að taka sýni hjá mjög mörgum, bæði starfsmönnum og fólki sem hefur verið á hótelinu. Tugir og mögulega hundruð þurfi að fara í sóttkví sem tengjast þessari sýkingu beint eða óbeint. 

Þórólfur segir að endanleg tala liggi ekki fyrir þar sem enn sé verið að kortleggja smitin. Jafnframt liggja niðurstöður raðgreininga á veirusmitunum ekki enn fyrir.

Þórólfur sá ekkert að því að ríkisstjórnin snæddi á hóteli eða veitingastað ef passað væri vel upp á allar smitvarnir. Hann játti því að hann færi sjálfur í slíkan kvöldverð ef allt væri með felldu að hans sögn. Alma Ómarsdóttir ræddi við Þórólf. 

Hótel Rangá var lokað eftir að starfsmaðurinn greindist jákvæður í gær. Allir ráðherrar, nema Svandís Svavarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, verða sendir í tvöfalda skimun og hafa verið beðnir um að viðhafa smitgát.