„Þetta er svo sem ekkert sérstaklega þægilegt en heldur ekkert óþægilegt,“ sagði Sigurður Ingi í viðtali við Sólveigu Klöru Ragnarsdóttur fréttamann fyrir utan turninn á Smáratorgi þar sem Íslensk erfðagreining hefur skimað fyrir kórónuveirunni. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra voru þarna um sama leyti.
Nú tekur við fimm daga smitgát og býst Sigurður Ingi við að verja þeim dögum heima fyrir austan.
Ekki áhyggjuefni ríkisstjórninni
Sigurður Ingi segir að það hafi komið í ljós í morgun að ráðherrarnir þyrftu í skimun. Hann segir aðspurður að þetta valdi ráðherrum ríkisstjórnarinnar ekki áhyggjum. „Nei, mér finnst bara gott að við séum með svona fyrirfram ákveðna verkferla sem við getum gengið inn í og fullkomlega eðlilegt að fara í þá vegferð og fylgja þessum ráðleggingum.“
Sigurður Ingi segist ekki vita til þess að nokkur af ráðherrunum hafi sýnt einkenni um smit. Ríkisstjórnin hafi reynt að viðhafa smitgát eftir megni, sinna eigin smitvörnum og halda ákveðnum fjarlægðum. Hluti af því sé að taka þátt í skimunum til að ná utan um hugsanlegar hópsýkingar.
Hann segir mikilvægt að fara stöðugt yfir verkferla og það sé gert.
„Það er stöðug áminning á meðan við erum að glíma við þetta, hvernig við getum lifað með veirunni, reynt að lifa eðlilegu lífi, látið stjórnkerfið virka, látið fyrirtækin og skólana virka. Þá þurfum við stöðugt að vera á tánum. Þetta er áminning um það.“