Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Um 300 alþjóðasamningar Íslands bíða birtingar

20.08.2020 - 15:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um 300 alþjóðasamningar sem Ísland hefur fullgilt að þjóðarrétti bíða lögbundinnar birtingar. Allir hafa samningarnir verið þýddir á íslensku, en um 25 til 30 slíkir samningar eru fullgiltir ár hvert.

Þetta kemur fram í svari Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni, þingmanni utan flokka.

Andrés Ingi kallar eftir því að stjórnvöld ljúki formlegri innleiðingu samninganna með birtingu í Stjórnartíðindum og taki saman tæmandi upplýsingar um alla þjóðréttarsamninga sem Ísland er aðili að og hefur gert við önnur ríki.

Andrés óskaði í nóvember á síðasta ári eftir upplýsingum frá ráðherra um fjölda slíkra samninga og hve margir þeirra bíði birtingar. Hann vildi einnig vita hve stór hluti samninganna hafi verið þýddur á íslensku og hve langur tími hafi að meðaltali liðið frá fullgildingu samninga, þar til þeir hafi verið birtir í samræmi við 4. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið nr. 15/2005.

Breytt forgangsröðun

Í svari ráðherra kemur fram að fjármunir til þessa verkefnis hafi minnkað verulega á árunum eftir efnahagshrunið og því hafi verið dregið úr birtingu samninga. Forgangsröðun hafi verið endurskoðuð og áhersla lögð á að birta fyrst samninga þar sem birting væri nauðsynleg forsenda réttaráhrifa. Í þeim tilfellum hafi birtingu verið hraðað.

Ráðherra segir að allir fullgiltir samningar hafi þegar verið þýddir á íslensku. Á síðustu tólf árum hafi 5 til 7 samningar verið birtir ár hvert og nú bíði um 300 samningar frá árunum 2007 til 2018 birtingar. Því hafi liðið allt að 10 til 12 ár frá því að samningur hafi verið fullgiltur þar til auglýsing um fullgildingu birtist í Stjórnartíðindum.

Ráðherra upplýsir að í upphafi árs hafi verið ráðist í átak um að birta samninga fyrri ára. Vegna kórónuveirufaraldursins hafi verkefnið tafist en nú sé gert ráð fyrir að birtingu eldri samninga verði lokið á næstu þremur árum. Vinna standi jafnframt yfir við birtingu samninga frá 2019 og gert sé ráð fyrir að henni ljúki í haust.

Misbrestur á framkvæmd

Andrés Ingi segir í samtali við fréttastofu, að svar ráðherra staðfesti að misbrestur hafi verið á framkvæmdinni í gegnum árin. Mikilvægt sé að bæta úr stöðunni sem fyrst og vinna niður langan hala. Óásættanlegt sé að stjórnvöld sinni ekki betur þessu verkefni, sem snúist í grunninn um að skýrt sé hvaða reglur gildi í samfélaginu.

Ekki sé aðeins takmarkandi að þjóðréttarsamningar séu ekki birtir, heldur sé hreinlega erfitt að nálgast upplýsingar um hvaða samningar hafi verið gerðir. Hann fagnar því að til standi að ráðast í átak og viðbrögð ráðherra sýni að eftirlit þingsins geti skilað beinum árangri.

Möguleg réttaróvissa

Í rannsókn Hrefnu R. Jóhannesdóttur á innleiðingu þjóðréttarsamninga í íslenskum rétti, kemur fram að birting slíkra samninga og annarra reglna sé mikilvægur þáttur í réttaröryggi. Engu að síður sé innleiðingarferlið hérlendis að stærstum hluta ólögfest og framkvæmd við fullgildingu hafi verið með ýmsu sniði, óskýr og oft ófullnægjandi. Ferlið byggi á óskráðum reglum og geti því verið ófyrirsjáanlegt.

Hrefna segir að aðgengi að alþjóðasamningum geri borgurum mögulegt að veita handhöfum ríkisvaldsins, stjórnvöldum og dómsvaldi, aðhald í störfum sínum. Ófullnægjandi innleiðing hafi í för með sér réttaróvissu og geti sett dómstóla í erfiða stöðu. Dómstólar hafi í gegnum tíðina gefið óinnleiddum samningum mismikið vægi.

Hún segir að samningar hafi oft verið fullgiltir en ekki innleiddir að fullu fyrr en löngu síðar, jafnvel þó efni þeirra kalli á breytingar á landslögum. Þessu þurfi Alþingi að bregðast við, en á síðustu árum virðist stjórnvöld þó vera farin að vanda betur til verka, meðal annars með því að kanna fyrirfram hvort samningar kalli á lagabreytingar.

Grundvallaratriði að reglur séu birtar

Andrés Ingi tekur undir orð Hrefnu og segir mikilvægt að allar reglur séu birtar og gerðar aðgengilegar almenningi, enda sé það bundið í lög. Slíkt gagnsæi sé í raun eitt af grundvallaratriðunum í hugmyndinni um réttarríkið. Á meðan staðan sé þessi, kunni fólk að eiga í erfiðleikum með að átta sig á hvaða alþjóðlegu skuldbindingum Ísland sé aðili að og hverjum ekki.

Hann segir að hvergi sé að finna samantekt eða tæmandi lista yfir alþjóðasamninga sem Ísland sé aðili að, en þeir skipti hundurðum. Því geti verið erfitt að átta sig á því hvort eða hverjar afleiðingar af stöðunni hafi verið eða geti orðið í framtíðinni.

Andrés segir að á vef utanríkisráðuneytisins sé að finna lista frá árinu 2005 þar sem getið er um 700 þjóðréttarsamninga, tvíhliða og fjölþjóðlegra. En þar sem fjöldi nýrra samninga sé fullgiltur ár hvert verði stjórnvöld að tryggja uppfærslu listans, enda mikilvægt að almenningur hafi greiðan aðgang að þeim lögum og reglum sem séu í gildi hverju sinni.