Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tilkynnti ummæli Helga Magnúsar til ríkissaksóknara

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum, hefur sent athugasemdir til ríkissaksóknara vegna ummæla sem Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, lét um hana falla í gærkvöld.

Helgi Magnús birti í gær færslu á Facebook þar sem hann sagði ástæðu til að ætla að ekki væru komin öll kurl til grafar í deilum innan lögreglunnar á Suðurnesjum. Ætti að skera burt meinið þyrfti að taka allt æxlið, því annars yxi það áfram. Helgi Magnús ræddi efni færslunnar í viðtali á mbl.is þar sem hann sagðist hafa verið að vitna til greinar á Vísi sem fjallaði um að yfirmenn lögreglunnar á Suðurnesjum væru að reyna að grafa undan Ólafi Helga Kjartanssyni, lögreglustjóra. Tiltók hann sérstaklega Öldu Hrönn, rifjaði upp LÖKE-málið svokallaða og fleiri uppákomur sem hún hefði staðið fyrir, eins og hann orðar það í viðtalinu. Ekki hafi allt verið til fyrirmyndar frá henni á þessu sviði.

Komið á borð Sigríðar

Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, staðfestir við fréttastofu að henni hafi borist athugasemdir Öldu Hrannar vegna téðra ummæla vararíkissaksóknara. Hún segir ummæli Helga Magnúsar hans eigin og að þau hafi ekki verið sett fram í neinu samráði við ríkissaksóknara. Aðspurð hvort ummæli vararíkissaksóknara geti talist eðlileg í ljósi þess embættis sem hann gegnir segist Sigríður ekki tjá sig um samskipti hennar við starfsmenn embættisins.

Stendur við ummælin

Helgi Magnús segir í samtali við fréttastofu að Öldu Hrönn sé frjálst að kvarta telji hún tilefni til þess og að hann hafi rætt ummælin við ríkissaksóknara. Hvað ummælin varðar hafi hann eingöngu verið að tjá sig út frá því sem birst hafi í fjölmiðlum um málefni lögreglustjórans á Suðurnesjum, enda hafi fréttir verið þess efnis að málefni embættisins þyrftu frekari skoðunar við. Að því leyti standi hann við ummælin.

Alda Hrönn vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu.

Áður kvartað undan ummælum Helga Magnúsar

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Alda Hrönn gerir athugasemdir vegna ummæla Helga Magnúsar. Árið 2011 kvartaði Alda Hrönn undan ummælum Helga Magnúsar til Ríkislögreglustjóra í sinn garð, en hún hélt því fram að hann hafi kallað hana kerlingartussu á göngum efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra. Ríkissaksóknari taldi ummælin ekki varða við lög og var því ekki aðhafst frekar í málinu.

Magnús Geir Eyjólfsson