Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sumarhafísinn á Norðurskauti verði horfinn 2035

20.08.2020 - 21:30
BEAUFORT SEA (March 15, 2018) The Royal Navy hunter killer submarine HMS Trenchant (S 91) surfaces in the Beaufort Sea during Ice Exercise (ICEX) 2018. ICEX is a five-week exercise that allows the U.S. Navy to assess its operational readiness in the Arctic, increase experience in the region, advance understanding of the Arctic environment and continue to develop relationships with other services, allies and partner organizations. (U.S. Navy photo by Mass Communication 2nd Class Micheal H. Lee)
 Mynd: Michael H. Lee - U.S. Navy
Sumarhafísinn á Norðurskautinu kann að vera horfin með öllu árið 2035 samkvæmt nýrri rannsókn sem birt var í tímaritinu Nature Climate Change.

Í rannsókninni er gerður samanburður á aðstæðum nú og á síðasta hlýskeiði fyrir 116.000- 130.000 árum síðan, með það fyrir augum að skoða tímabilið sem mögulega hliðstæðu loftslagsbreytinga í framtíðinni.

Hitastigið er nú um 4-5 gráðum hærri yfir sumartímann á svæðinu, en það var fyrir iðnbyltinguna.

Fjallað er um rannsóknina í The Barents Observer sem segir hitamuninn hafa valdið vísindamönnum heilabrotum áratugum saman. Maria Vittoria Guarino, hjá bresku heimskautastofnunni (BAS) og einn höfunda skýrslunnar, segir það hafa verið krefjandi, bæði tæknilega og vísindalega, að leysa gátuna.

„Þetta er í fyrsta skipti sem við byrjum að átta okkur á því hvernig norðurskautið varð íslaust á síðasta hlýskeiði,“ segir Guarino.

Vorsólin eykur bráðnunina

Á vorin og snemmsumars myndast grunnir vatnspollar á yfirborði heimskauta hafíssins. Bræðsluvatnspollarnir hafa áhrif á hversu mikið sólarljós ísinn dregur í sig og hversu mikið af sólarljósinu endurvarpast aftur út.

Er það niðurstaða vísindamannanna að mikil vorsól valdi meiri bráðnun og fjölgi pollum sem aftur eigi stóran þátt í aukinni hafísbráðnun.

Hefur mikil áhrif á aðstæður á Norðurskautinu

Louise Sime, einn höfunda skýrslunnar, segir að með bættum skilningi á því sem átti sér stað á síðasta hlýskeiði þá geti vísindamenn skilið betur hvað muni gerast í framtíðinni og þær upplýsingar bendi til að enginn sumarhafís verði á Norðurskautið árið 2035.

„Við vitum að Norðurskautið verður fyrir verulegum breytingum með hlýnun jarðar,“ sagði Sime og kvað tilhugsunina um að hafísinn verði horfinn árið 2035 eiga að fá jarðarbúa til að leggja allt sölurnar til að draga úr losun hið fyrsta.

Samkvæmt vísindamönnum við bandarísku geimvísindastofnunina NASA þá hefur hafísinn mikil áhrif á aðstæður á norðurskautinu, bæði veður og staðbundið og hnattrænt loftslag.

Virkar eins og risaspegill

Hvítt yfirborð hafíssins virkar líkt og risaspegill sem endurvarpar sólarljósi aftur út, en þegar ísinn byrjar að bráðna og dökkt yfirborð hafsins gleypir sólargeislana byrjaðr ákveðinn vítahringur sem leiðir til meiri bráðnunar.

Barents Observer bendir á að í júlí á þessu ári hafi bráðnun mælst meiri en hún hefur gert frá því að mælingar með gervihnöttum hófust í lok áttunda áratugar síðustu aldar.

Hafa vísindamenn á þýska vísindaskipinu Polarstern greint frá að verulega hafi borið á hopun íssins meðfram síberísku strandlengjunni þetta sumarið. Við þetta hafi svo bæst að hitamet voru slegin í Síberíu og það hafi haft veruleg áhrif á hafísinn á rússneska hluta Norðurskautsins.